Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Heyskapur nyrðra seinni af stað en í meðalári

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Anna Margrét Jónsdóttir, bóndi á bænum Sölvabakka nærri Blönduósi segist ekki muna eftir jafn hvössu veðri og verið hefur undanfarið á þessum árstíma. Heyskapur er seinna á ferðinni en í meðalári og sláttur  varla byrjaður.

Heyskapur er hafinn um allt land og ætla má að margir bændur muni nýta vel góðviðrisdagana sem framundan eru til að heyja.

Anna Margrét, sem var í viðtali hjá morgunútvarpi Rásar 2, segir maí hafa verið ískaldan en að vorið hafi komið í öllu sínu veldi annan dag Hvítasunnu og varað í nokkra daga.

„En svo kom það aftur í júní og ég hugsa að sprettan sé svona tíu dögum, hálfum mánuð á eftir meðalári.“

Hún telur bændur verða seinni að heyja í ár en það komi ekki endilega niður á gæðum heysins. „Túnin eru bara róleg af stað þá þroskast nú grösin bara síðar. Ég hugsa að flestir doki bara við og sjái aðeins til með það.“

Anna Margrét segir áramun í sprettunni. Snemmbúið vor sé þó algengara hin síðari ár.

„Það truflar kannski aðeins þetta mat að menn eru að reyna að bæta heygæðin og eru því að fara fyrr af stað að heyja, heldur en var fyrir svona tuttugu árum.“