Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjármagn vantar til að Fjarðarheiðargöng haldi áætlun

01.07.2021 - 09:18
Táknrænn gangamunni sem Seyðfirðingar reistu í Fjarðarheiði og sprengdu táknræna fyrstu sprengingu fyrir Fjarðarheiðargöngum.
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fulltrúar Múlaþings fengu þær upplýsingar á fundi með Vegagerðinni að fjóra milljarða vantaði til að hægt væri að hefja framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng á tilsettum tíma. Bæjarfulltrúi í Múlaþingi óttast að tafir geti orðið á gerð ganganna.

Samkvæmt nýjustu áætlunum Alþingis áttu framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar að hefjast á næsta ári, 2022. Fulltrúar úr sveitarstjórn Múlaþings hittu fulltrúa Vegagerðarinnar á fundi í fyrradag til að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir á Austurlandi og fengu þær upplýsingar að fjóra milljarða vantaði í verkefnið. Nú er unnið að hönnun og rannsóknum á heiðinni og segir Hildur Þórisdóttir Seyðfirðingur og bæjarfulltrúi í Múlaþingi að undirbúningur gangi hægar en gert hafi verið ráð fyrir.

„Það vantar fjóra milljarða til þess að það sé hægt að vinna að Fjarðarheiðargöngum samkvæmt samgönguáætlun. Þetta kom okkur verulega í opna skjöldu og olli miklum vonbrigðum. Nú er gerð Dýrafjarðarganga lokið. Það er ekki verið að vinna að neinum jarðgöngum á Íslandi sem er bagalegt á sama tíma og talað er um stórsókn í samgöngumálum. Nú er búið að boða sameiningu sveitarfélaga hjá ríkisstjórninni en þá verður líka um leið að gera sveitarfélögum kleift að njóta ávinningsins. Eins og alþjóð veit þá urðu hér stórkostlegar náttúruhamfarir á Seyðisfirði í desember.  Þá var bærinn rýmdur og það var mikið lán og alls ekki sjálfgefið að heiðin væri fær þennan dag. Við erum búin að bíða gríðarlega lengi eftir þessari samgöngubót og ég kalla eftir því að þingið sýni það í verki að þeim sé alvara og að það sé fjármagn á bak við þær áætlanir sem hafa verið samþykktar samhljóða á þingi,“ segir Hildur.

Vegagerðin þarf fjármagn til að geta boðið verkefnið út og gert samninga fram í tímann. Í fyrra voru 100 milljónir settar í undirbúning, annað eins á þessu ári, en gert er ráð fyrir milljarði á hverju ári 2022 til 2024.

„Þetta er bara að gerast of hægt þannig að Vegagerðin geti unnið eftir sínum áætlunum. Þetta fjármagn þarf að koma inn mikið mikið fyrr.

En er ekki eðlilegt að þeta sé tekið fyrir við fjárlagagerð næsta árs?

 Jú, sjálfsagt er það eðlilegt en það eru bara vonbrigði að þingið hafi ekki afgreitt meira fjármagn áður en það fór í sumarfrí. Þannig að þær ágætu áætlanir sem er búið að gera geti staðist og hægt sé að vinna eftir þeim,“ segir Hildur Þórisdóttir bæjarfulltrúi í Múlaþingi.