Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bygging 50 manna byggðakjarna í Fljótsdal í uppnámi

01.07.2021 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Áform um byggingu allt að 50 manna byggðarkjarna í Fljótsdal eru komin í uppnám. Ríkið á í erfiðleikum með að sanna eignarhald á jörðinni Hjarðarbóli þar sem byggðin á að standa og nágrannar gera tilkall til hennar.

Tæplega hundrað manns eru með lögheimili í Fljótsdal en þar er húsnæðisskortur; bókstaflega ekkert húsnæði í boði. Hreppurinn ætlar að bregðast við því og að hefja uppbyggingu á byggðarkjarna þar sem allt að 50 manns geta búið. Hreppurinn ætlar að byggja 2-4 hús og bjóða öðrum lóðir einnig.

Byggðarkjarninn á að rísa í landi Hjarðarbóls sem hingað til hefur verið álitin ríkisjörð. Þegar semja átti um landnotin kom babb í bátinn. Ekkert finnst um að ríkið eigi jörðina og hafa landeigendur á næstu jörð gert tilkall. Ekki verður því hægt að hefja uppbyggingu fyrr en niðurstaða fæst. Jóhann Frímann Þórhallsson, oddviti í Fljótsdal, segir þetta ekki hafa áhrif á uppbyggingu við Hengifoss. Þar verður í sumar merktur stígur upp með fossinum í landi Hjarðarbóls en óvissa ríkir um byggðarkjarnann. Hreppurinn ætlar þó ekki að leggja árar í bát heldur láta deiliskipuleggja kjarnann í sumar, þrátt fyrir óvissuna.

„Menn vilja sjá til hvernig þau mál munu þróast áfram. Kannski þarf að endurskoða þá ákvörðun í september.

En er ekki talsvert í húfi fyrir hreppinn? Er ekki nauðsynlegt að byggja íbúðarhúsnæði í Fljótsdal?

Jú, það vantar leiguhúsnæði. Sérstaklega hjá stofnunum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu og svo verktakafyrirtækjum. Menn sjá fyrir sér að á næstu fimm árum muni fjölga um svona 20% hjá þessum aðilum,“ segir Jóhann. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV