Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Til skoðunar að færa leghálssýnarannsóknir aftur heim

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir til skoðunar í ráðuneytinu að flytja rannsóknarhluta leghálsskimana aftur heim til Landspítalans. Slík tilfærsla krefjist þó mikils undirbúnings.

Um síðustu áramót færðust leghálsskimanir frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ákveðið var að senda sýnin til Danmerkur til veiru- og frumugreiningar sem hefur sætt harðri gagnrýni frá konum, kven- og krabbameinslæknum. 

Dæmi eru um að konur hafi mátt bíða mjög lengi eftir niðurstöðum. Þegar í apríl ámálgað heilbrigðisráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi að flytja rannsóknarhlutann aftur heim. 

 Svandís var í viðtali í morgunútvarpi Rásar tvö þar sem hún sagði rannsóknir ytra hafa tekið of langan tíma og að áhyggjuefni sé hve sé traustið í samfélaginu er lítið til breytinganna sem gerðar voru um áramót. 

„Og þess vegna höfum við verið að ræða það að undanförnu við heilsugæsluna og landspítala að mögulega að flytja þennan rannsóknarhluta hingað heim.“ 

Svandís segir það þó krefjast skipulags. „Með þeim undirbúning sem Landspítalinn þarf á að halda, með því að tryggja mönnun, tækjabúnað og húsnæði.“

Svandís segir að málið snúist fyrst og fremst um öryggi þjónustunnar en að Landspítalinn telji sig geta tekið við verkefninu að undangengnum miklum undirbúningi.

„Við höfum raunar talið allan tímann að best færi á að þetta yrði gert hér en til þess þarf þennan undirbúning. Það er ekki eins og Landspítalinn gæti tekið við þessu á einum degi.“

Hún kveðst vonast til að ráðuneytið og heilsugæslan geti greint frá þessu með nákvæmari hætti alveg á næstu dögum.