Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þungar áhyggjur af niðurskurði til menningarmála

Mynd með færslu
 Mynd: Norræna húsið
Forstjóri Norræna hússins í Reykjavík lýsir þungum áhyggjum vegna áforma Norrænu ráðherranefndarinnar um að skera niður framlög til menningar á næstu árum. Það þýði um 26,6% niðurskurð til hússins næstu fjögur ár. Forseti Norðurlandaráðs tekur í sama streng.

Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að niðurskurðurinn hefði ekki getað komið á verri tíma. Fjárframlög til hússins verði fimm prósentum minni í ár en í fyrra og hið sama eigi við næsta ár. Niðurskurðurinn verði enn meiri næstu tvö ár eftir það. 

Hún segir að kórónuveirufaraldurinn hafi sýnt að enn sé verk að vinna við að auka samheldni Norðurlanda og að menningin leiki þar viðamikið hlutverk.

Henni þyki leitt að framtíðarsýn um sjálfbær og samþætt Norðurlönd árið 2030 skuli endurspeglast í þessum mikla niðurskurði. Undanfarið ár hafi mikil áhersla verið lögð á að kynna skólabörnum norrænt samstarf sem hafi gefist einkar vel.

Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, segir á vefsíðu Norræns samstarfs að afleiðingar niðurskurðar geti orðið hörmulegar. Hann kveðst einkum hafa áhyggjur af yngri kynslóðum en til að auka áhuga þeirra á Norðurlöndum þurfi að skapa ný verkefni en ekki skera niður. 

„Við furðum okkur á því að ekki hafi verið tekið meira tillit til gagnrýni okkar í þeim drögum að fjárhagsáætlun sem nú liggja fyrir, einkum hvað snertir niðurskurð á menningarsviði.“

Sabina Westerholm segir að erfitt verði að skipuleggja starfsemi næstu ára, en verði af nærri 27 prósenta lækkun framlaga þýði það mikinn samdrátt í menningarstarfi í Norræna húsinu.