Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þórólfur fullbólusettur með AstraZeneca

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, var í hópi þeirra sem fékk seinni sprautuna af AstraZeneca í Laugardalshöll í morgun. Þegar Þórólfur fékk fyrri skammtinn í lok apríl stóðu viðstaddir upp og klöppuðu fyrir honum.

Þórólfur er ekki eini sóttvarnalæknirinn sem hefur verið bólusettur með AstraZeneca því Anders Tegnell, hinn umdeildi sóttvarnalæknir Svíþjóðar, var einnig bólusettur með bóluefninu. Þórólfur afþakkaði fyrst bólusetningu sem heilbrigðisstarfsmaður en var síðan boðaður vegna aldurs.

Tæplega 50 þúsund verða bólusettir í vikunni og eru langflestir að fá seinni skammtinn. Um helmingur eða 26 þúsund fá seinni skammtinn af AstraZeneca, fjögur þúsund fá Spikevax sem áður hét Moderna og 18 þúsund bóluefni Pfizer. 

Samkvæmt covid.is hafa nærri níu af hverjum tíu sem boða á í bólusetningu nú fengið sinn fyrsta skammt og heilbrigðisráðherra greindi frá því á Twitter í gær að allir landsmenn, 16 ára og eldri, hefðu fengið boð í bólusetningu.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV