Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir raunhæft að Landspítali taki við rannsóknum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir raunhæft að Landspítalinn taki að sér rannsóknarhluta leghálsskimana. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá í morgun að slík tilfærsla væri í undirbúningi í ráðuneytinu.

Óskar tekur undir með Svandísi að tilfærslan krefjist mikils undirbúnings. Hann kveðst sammála því að besti kosturinn sé að allar rannsóknir sem möguleiki er á séu gerðar á Íslandi.  

„Landlæknir er búinn að gefa út gott yfirlit yfir það hvernig best er að tryggja gæði og öryggi. Landspítalinn hefur sagt að þeir geti gert það samkvæmt því sem landlæknir hefur sett upp.“ 

Út frá því markmiði hafi verið unnið frá því í sumar. Verið sé að fara yfir með Landspítalanum hve hratt yfirfærslan geti gengið en ráðuneytið hafi stýrt þeirri vinnu. 

Óskar segir í höndum ráðuneytisins hvenær af verði. Ráðherra sagði í morgun að á næstu dögum verði greint frá hvenær af breytingunum verði. Óskar segir að ýmis verkefni bíði Landspítala svo verða megi af þeim. 

„Hann þarf að opna þessar rannsóknarstofur, ráða fólk og kaupa tækjabúnað og starta þannig að það mun taka einhvern tíma. Við þurfum að tryggja að ekki verði rof á þjónustu ef af verður. Þannig að það er mjög mikilvægt að þetta verði vel undirbúið og vandað.“ 

Óskar segir að tryggja þurfi öryggi en kveðst ekki viss um hvaða tíma undirbúningur taki. Landspítalinn þurfi ákveðinn tíma sem hann fái. 

Um síðustu áramót færðust leghálsskimanir frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sýni voru til Danmerkur til veiru- og frumugreiningar sem hefur sætt harðri gagnrýni frá konum, kven- og krabbameinslæknum.