Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Rýming gildir áfram í Varmahlíð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rýming níu húsa gildir enn í Varmahlíð í Skagafirði eftir að aurskriða féll á tvö hús þar síðdegis í gær. Stöðuskýrsla verður gefin út eftir fund almannavarnanefndar klukkan tíu, að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra.

Jörðin hefur ekki gefið sig frekar á svæðinu en jarðvegurinn er alveg vatnsósa. Það er stranglega bannað að fara inn á rýmingarsvæðið, nema í fylgd björgunarsveitarfólks eða lögreglu.  

„Eins og staðan er núna er hann óstöðugur. Menn vita ekki nákvæmlega hvaðan þetta vatn kemur og meðan staðan er sú er ekki óhætt að aflétta þeirri rýmingu sem ákveðin var í gær,“ segir Stefán í samtali við fréttastofu. 

Hann telur ekki hættu á ferðum ofar í hlíðinni en unnið er að því að meta stöðuna. Vatnsmagnið er þó mjög mikið. Hann segist ekki vita hve margir búa í húsunum sem lentu undir skriðunni í gær, en þar býr fjölskyldufólk.

Húsin eru mjög mikið skemmd og því segir Stefán mikla mildi að enginn hafi verið innandyra þegar skriðan féll. 

„Þó að þetta hafi verið skelfilegur atburður sem átti sér stað í gær þá held ég að það hafi verið kraftaverk að ekki urðu slys á fólki. Það er bara röð tilviljana sem veldur því að svo fór ekki.“