Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kína lýst malaríulaust ríki

30.06.2021 - 06:21
epa000236429 (FILES) An undated pictue of a mosquito "Anopheles quadrimaculatus", The authorities of the health department of Florida reported on Tuesday, 20 July 2004, at least four cases of persons infected with the Nile virus in Miami-Dade
 Mynd: EPA - EFE
Sjö áratuga baráttu Kínverja við malaríu er formlega lokið samkvæmt yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í morgun. Á fimmta áratug síðustu aldar greindust um 30 milljónir á ári hverju með malaríu í Kína, en síðustu fjögur ár hefur enginn fengið sjúkdóminn innanlands. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, stjórnandi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir að rekja megi árangurinn til hnitmiðaðra aðgerða í áratugi. Þegar á sjötta áratug síðustu aldar hófu stjórnvöld aðgerðir til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins. Árið 1967 var hópi vísindamanna gert að finna nýjar meðferðir við malaríu, sem leiddi til uppgötvunar artemisinin á áttunda áratugnum. Efnið er notað til grundvallar öflugustu malaríulyfja dagsins í dag. 

Með aðgerðum sínum tókst Kínverjum að fækka malaríutilfellum niður í 117 þúsund árlega undir lok tíunda áratugarins, og dauðsföllum fækkaði um 95 prósent. Snemma á síðasta áratug voru tilfellin svo aðeins um fimm þúsund á ári. Síðustu fjögur ár hefur svo enginn greinst með malaríu í Kína, og sótti ríkið því um að vera lýst malaríulaust samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Til þess að vera lýst malaríulaust þarf ríki að sýna með óyggjandi hætti að það hafi verið smitlaust í þrjú ár. Kína varð fertugasta landið til að losna við sjúkdóminn, en fyrir eru 61 ríki á listanum þar sem malaría hefur aldrei greinst.