Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Helstu stjörnur landsins í Tónaflóði um landið

Mynd: RÚV / RÚV

Helstu stjörnur landsins í Tónaflóði um landið

30.06.2021 - 15:27

Höfundar

RÚV og Rás 2 ferðast um landið og halda tónleika á föstudagskvöldum í júlí. Tónleikarnir verða í beinni útsendingu í sjónvarpinu og á Rás 2. Í ár verða tónleikarnir bornir uppi af mismunandi gestasöngvurum á hverjum stað sem syngja íslensk lög við undirleik húsbandsins Albatross undir stjórn Halldórs Gunnars Pálssonar.

Fyrsti þátturinn fer í loftið föstudaginn 2. júlí kl. 19.40 með tónleikum í Höllinni í Vestmannaeyjum, en þessa helgi er líka goslokahátíð Eyjamanna. Tónleikarröðin byrjar með látum en Jón Jónsson, Bryndís Jakobsdóttir, Sverrir Bergmann, Jóhanna Guðrún og Friðrik Dór stíga á svið. Kynnir verður útvarps- og sjónvarpsmaðurinn knái Atli Már Steinarsson en hann tekur heimamenn tali. Að auki heimsækir Helga Margrét Höskuldsdóttir sjónvarpskona úr Sumarlandanum káta Eyjamenn og -konur. Það má gera ráð fyrir mikilli stemmningu þetta kvöld enda Eyjamenn þekktir fyrir afar létta lund.

Þann 9. júlí verður Tónaflóð á Bíldudal, 16. júlí á Akureyri og lokatónleikarnir verða svo á Höfn í Hornafirði 23. júlí. Á öllum fjórum stöðunum verður ákveðnum starfsstéttum á staðnum boðið á tónleikana, engin miðasala verður fyrir almenning.

Þetta er annað sumarið í röð sem RÚV leggur land undir fót en í fyrra voru Reykjanesbær, Bolungarvík, Siglufjörður, Neskaupstaður og Aratunga heimsótt. Í ár verða tónleikarnir með örlítið breyttu sniði en í stað þess að flytja lög úr héraði eins og í fyrra flytja söngvararnir eigin lög í bland við þekktustu slagarana úr íslensku söngbókinni. Og auðvitað eru allir landsmenn hvattir til að syngja með. Nálgast má söngbækur með texta laganna hér

Tónleikarnir vöktu mikla lukku í fyrrasumar. Í meðfylgjandi myndbroti má sjá Helga Björnsson flytja lagið Húsið og ég (Mér finnst rigningin góð) með góðri aðstoð eiturhressra Bolvíkinga.