Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gul viðvörun á Ströndum og um allt Norðurland

30.06.2021 - 07:13
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Veðurstofan spáir sunnan og suðvestan 5-13 metrum á sekúndu víða en hvassara, 13-23 við fjöll sunnan Vatnajökuls og norðan til á landinu. Gul viðvörun er í gildi fram á kvöld fyrir Strandir og Norðurland.

Þar um slóðir er spáð sunnan og suðvestan hvassviðri, 13-20 metrum á sekúndu. Búast má við snörpum vindhviðum allt að 30 metrum á sekúndu. Slíkar aðstæður geta verið varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, til dæmis ökutæki með aftanívagna.

Gert er ráð fyrir fremur hægum vindi á suðvesturhorninu og á Austfjörðum í
dag. Þokusúld eða rigning með köflum verður um landið vestanvert, en búast má við bjartara veðri austanlands.

Hiti verður á bilinu 6-15 stig á vestanverðu landinu, en 15-27 stig á austanverðu landinu, hlýjast í innsveitum á Austurlandi. Hæg sunnan- og suðvestanátt er við gosstöðvarnar í dag, og þá berst gasið til norðurs og norðausturs og gæti orðið vart við á Vatnsleysuströnd og á höfuðborgasvæðinu.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV