Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grænn raforkusamningur undirritaður

30.06.2021 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Landsvirkjun
Landsvirkjun og Verne Global hf. tilkynntu í dag undirritun nýs græns raforkusamnings sem gildir til 2030, en í honum er samið um upprunaábyrgðir til staðfestingar á því að öll raforka sem seld er til gagnavers Verne Global á Íslandi er einungis framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Fyrsta alþjóðlega gagnaverið á Íslandi

Verne Global hefur átt viðskipti við Landsvirkjun frá 2009 og var fyrsta alþjóðlega gagnaverið sem komið var á fót á Íslandi. Starfsemin, sem losar engan útblástur, er sérhönnuð fyrir gervigreind og stórvirka gagnavinnslu, um leið og viðskiptavinum er boðið upp á alhliða stuðning meðan á vinnsluferlinu stendur til þess að hámarka afköst og sveigjanleika.

BMW og VW meðal samstarfsaðila

Samstarfið við Landsvirkjun gerir Verne Global kleift að bjóða viðskiptavinum sínum umtalsvert kostnaðarhagræði með aðgengi að gnótt endurnýjanlegrar vatns- og jarðhitaorku sem Ísland hefur upp á að bjóða um leið og dregið er úr kolefnislosun. Bílaframleiðendurnir BMW og Volkswagen eru meðal þeirra sem vinna með Verne Global og nýta sér vinnslugetu gagnaversins til þess að bæta hönnun bíla sem þeir framleiða, stytta hönnunartímann og stuðla að bestun í bílaumferð án þess að skaða umhverfið, að því er segir í tilkynningunni.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Verne Global hf, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun.

Jón Agnar Ólason