Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Glæru pokarnir taka við af þeim svörtu á morgun

30.06.2021 - 15:14
Sorpa
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Í dag eru síðustu forvöð að fara í Sorpu með blandaða ruslið sitt í svörtum poka. Frá og með morgundeginum, 1. júlí, tekur Sorpa aðeins við úrgangi í glærum, gagnsæjum pokum á endurvinnslustöðvum. Þeir eiga að auðvelda starfsmönnum endurvinnslustöðvanna að leiðbeina fólki við flokkun. 

Glæru pokarnir voru kynntir til sögunnar á þrítugsafmæli Sorpu í apríl síðastliðnum.

Frá og með morgundeginum verður bannað að koma með svarta poka á endurvinnslustöðvar en fólki verður ekki vísað í burtu fyrsta kastið, þótt það komi með slíkan poka.

Gunnar Dofri Ólafsson samskiptasérfræðingur Sorpu segir Íslendinga hafa verið fljóta að tileinka sér að flokka sorp en þó megi gera enn betur.

„Um það bil helmingur af því sem fólk hendir í gám sem á að fara til urðunar er efni sem væri hægt að setja í endurvinnslu,“ segir Gunnar Dofri. Það sé ekki eingöngu gott fyrir umhverfið. Með þessu fari allt í endurvinnslu sem þangað eigi að fara. 

„Það að urða hluti, þá ertu að dæma þá til glötunar. Það er ekki hægt að gera neitt fyrir þá eða endurvinna eða koma þeim aftur inn í hringrásina. Þetta er líka ódýrara fyrir samfélagið af því urðun og eftir atvikum á síðari stigum brennsla á þessum úrgangi er miklu dýrari heldur en endurvinnsla.“ 

Gunnar Dofri segir þessum breytingum hafa verið vel tekið og skilning ríkja á að þær séu gerðar í þágu umhverfsins.  Engum verði vísað frá enduvinnslustöðum á morgun þótt svartur ruslapoki verði með í för.

„Við munum að sjálfsögðu vera á staðnum og mæta þeim sem hafa ekki fengið skilaboðin, eða eru ekki búnir að ná sér í glæra poka og munum fara yfir þessa hluti með þeim.“