Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki lengur hægt að veðsetja upp í rjáfur

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Möguleikar á að taka há íbúðarlán minnka því Seðlabankinn hefur lækkað veðsetningarhlutfall fasteignalána. Ástæðan er aukin skuldsetning heimila. Þeir geta nú aðeins fengið fasteignalán sem nemur 80 prósentum af kaupverði íbúðarinnar en ekki 85 prósentum, samkvæmt ákvörðun Fjármálastöðugleikanefndar. Þau sem kaupa fyrstu sína íbúð geta þó áfram veðsett íbúðina sem nemur 90 prósentum af fasteignamati. 

Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarið og fasteignamat á næsta ári hækkar víðast hvar. Framboð á íbúðum er minna en eftirspurn og eignar seljast hratt. 

Seðlabankinn, það er segja nefndin sem tekur ákvarðanir um beitingu bankans varðandi fjármálastöðugleika, hefur áhyggjur af hækkandi fasteignaverði og aukinni skuldsetningu heimila. 

„Við erum að koma í veg fyrir það að við séum að sjá markaðinn í rauninni fara í einhverja bólu eða að hann muni ofurrísa,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og form. fjármálastöðugleikanefndar.

Eru vísbendingar um það?

„Það eru vísbendingar um það að skuldsetning sé aðeins að aukast. Og líka það sem við sjáum að það eru vísbendingar um það væntingar kaupenda um að fasteignamarkaðurinn haldi áfram að hækka og það sé bara orðið í góðu lagi að taka gríðarlega mikið af lánum vegna þess að markaðurinn muni bara búa til eigið fé fyrir þig. Og það er ekki rétt. Það mun ekki ganga eftir og við viljum ekki sjá þannig fasteignamarkað.“

Þeim sem eru að kaupa fyrstu íbúð verður hlíft og geta þeir áfram veðsett íbúð sína upp í 90 prósent af kaupverði fasteignar. Hlutfall veðsetningar annarra fer úr 85 í 80 af hundraði. 

Ef kaupverð íbúðar er 100 milljónir króna þá var hægt að veðsetja hana fyrir 85 milljónir. Nú verða það 80 milljónir og það fimm milljóna króna munur. Munurinn á 75 milljóna króna íbúð verður 3.750.000 og 50 milljóna tvær og hálf milljón. 

Ásgeir segir að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið teknar ákvarðanir í skipulagsmálum eins og að brjóta ekki ný lönd undir ný hverfi: 

„Það hefur áhrif. Og það verða að vera byggðar íbúðir til þess að fólk geti keypt þær. Það mun breytast, ég meina, við eigum nóg land hér á Íslandi og þó að við værum mörgum sinnum fleiri.“

Yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar má finna hér