Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aurskriða féll á skíðasvæðinu í Tindastól

30.06.2021 - 10:12
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Aurskriða féll á skíðasvæðinu í Tindastól í gærkvöldi og tók í sundur háspennulínu sem liggur upp í Einhyrning, sem er kennileiti á svæðinu.

Sendir Neyðarlínunnar og Mílu á varaafli

Feykir.is greinir frá. Þar segir að rafmagn hafi slegið út á Skagalínu og Reykjaströnd eftir að aurskriða féll. Sendir frá Mílu og Neyðarlínunni sem er á svæðinu verður keyrður á varaafli þangað til jörð þornar og hægt verður að fara í viðgerðir.

Miklar leysingar í fjöllum

Brynjar Þór Gunnarsson, starfsmaður hjá RARIK, kom fyrstur á vettvang. Hann segir aðkomuna hafa verið slæma. „Það var mikið vatn sem var að renna þarna og mikil drulla og grjót sem var að renna niður hlíðina. Það er mjög hvasst og búið að vera rosalega heitt hérna undanfarna daga. Þannig að það eru miklar leysingar í gangi í fjöllunum,“ segir Brynjar. 

Gerir þér grein fyrir því hvað það var sem gerðist þarna?

„Strengurinn okkar liggur þarna akkúrat þar sem skriðan hefur fallið, háspennustrengur upp á Einhyrning og það virðist bara hafa farið í sundur.“ 

Verk fyrir höndum

Hann segir talsvert tjón hafa orðið skíðasvæðinu. „Ég hugsa að það þurfi að fara af stað talsvert hreinsunarstarf þarna í gang, hreinsa grjót og drullu. Já, ég held að það sé smá verk fyrir höndum.“