Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur ráðherra ekki hafa farið út fyrir valdsvið sitt

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins telur dómsmálaráðherra ekki hafa farið út fyrir valdsvið sitt þegar hún hringdi í hana í tvígang á aðfangadag. Ráðherra spurði lögreglustjórann hvort lögreglan ætlaði að biðjast afsökunar á færslu um Ásmundarsal þá um morguninn. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra spurði Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, hvort lögreglan myndi biðjast afsökunar á dagbókarfærslu sinni á aðfangadag um sóttvarnabrot í Ásmundarsal. Í færslunni stóð að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem reyndist vera Bjarni Benediktsson, hefði verið meðal gesta í partýi í salnum á Þorláksmessukvöld.

Var spurð út í efni símtalanna

Halla Bergþóra greindi frá þessu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í byrjun mars. Samkvæmt heimildum fréttastofu spurðu nefndarmenn lögreglustjórann út í samskipti hennar og dómsmálaráðherra á aðfangadag, en Áslaug Arna hringdi tvisvar í lögreglustjórann þann dag og spurði hvort það kæmi afsökunarbeiðni frá embættinu vegna færslunnar, í ljósi þess að það hefði verið tilgreint sérstaklega að ráðherra hefði verið viðstaddur. 

Hafði ekki afskipti af rannsókninni

Lögreglustjórinn vildi ekki veita fréttastofu viðtal í dag og ítrekaði í skriflegu svari að hún ætlaði ekki að fjalla nánar um símtölin við dómsmálaráðherra. Samskiptin hafi snúið að upplýsingagjöf og telur hún að ráðherra hafi haldið sig innan þeirra heimilda sem hún hefur til upplýsingaöflunar frá forstöðumanni stofnunar sem heyrir undir hana. Þá metur lögreglustjórinn það svo að ráðherra hafi ekki verið að hafa afskipti af rannsókn umrædds máls. Ekkert er tilgreint í svarinu varðandi spurningu ráðherra um afsökunarbeiðnina. 

Staðarhaldarar Ásmundarsalar sektaðir

Rannsókn lögreglu á málinu lauk nýlega með sektargreiðslu staðarhaldara Ásmundarsalar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra voru skráð 237 brot á sóttvarnalögum í faraldrinum. Ekki náðist í Áslaugu Örnu í dag.