Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spurði lögreglustjóra um afsökunarbeiðni á aðfangadag

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Dómsmálaráðherra innti lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu eftir afsökunarbeiðni í símtali síðdegis á aðfangadag vegna dagbókarfærslu sem lögreglan skrifaði um fjármálaráðherra í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Þetta sagði lögreglustjórinn á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í mars.

Tvö símtöl frá ráðherra á aðfangadag

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra spurði Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, hvort lögreglan ætlaði að biðjast afsökunar á dagbókarfærslu sinni á aðfangadag um sóttvarnarbrot í Ásmundarsal. Í færslunni stóð að ráðherra í ríkisstjórn Íslands hefði verið meðal gesta í partýi í salnum á Þorláksmessukvöld þar sem sóttvarnalög voru brotin.

Ráðherrann var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Halla Bergþóra greindi frá þessu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í byrjun mars, en fundurinn var lokaður og trúnaður ríkti um það sem fram fór þar. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu spurðu nefndarmenn lögreglustjórann út í samskipti hennar og dómsmálaráðherra á aðfangadag, en Áslaug Arna hringdi tvisvar í hana yfir daginn, í seinna skipti einum og hálfum tíma fyrir jól, klukkan hálf fimm. Í því símtali spurði ráðherra lögreglustjórann hvort það kæmi ekki afsökunarbeiðni frá embættinu vegna færslunnar, í ljósi þess að það hefði verið tilgreint sérstaklega að ráðherra hefði verið viðstaddur, en það varð ljóst fyrir hádegi á aðfangadag að umræddur ráðherra var Bjarni. Efni símtalsins var rætt á fundi nefndarinnar þegar Halla Bergþóra sat fyrir svörum.

Ekkert viljað ræða símtölin við fjölmiðla

Hvorki hún né Áslaug Arna hafa viljað greina opinberlega frá því hvað fór fram í þessum símtölum annað en að þau hafi snúist um upplýsingagjöf lögregluembættisins í dagbókarfærslunni. Ráðherra vildi sömuleiðis ræða verklagsreglur embættisins við dagbókarskrif. 

Embætti lögreglustjórans skoðaði hvort færslan gæti flokkast sem brot á persónuverndarlögum, en svo var ekki. Verklag og samskipti embættisins við fjölmiðla var þó endurskoðað. 

Áslaug hefur svarað því að henni hafi þótt dagbókarfærslan sérstök, en hún hafi ekki látið í ljós þá skoðun sína í símtölunum við Höllu Bergþóru. Fyrir utan símtölin tvö hafi hún ekki rætt Ásmundarsalarmálið við hana eða haft afskipti af rannsókn þess. 

Lögreglumenn leita til Persónuverndar

Í skýrslu eftirlitsnefndar með störfum lögreglu er farið yfir upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna í Ásmundarsal og er samtal tveggja þeirra talið ámælisvert, en þar ræða þau saman um þá gesti sem eru samankomnir í salnum. Þá er einnig metið óeðlilegt hvernig staðið var að upplýsingagjöf daginn eftir, það er að segja að tilgreina að ráðherra hafi verið meðal gesta. Landssamband lögreglumanna ætlar að tilkynna meðferð upptakanna til Persónuverndar. Sömuleiðis verður sent erindi til eftirlitsnefndarinnar. Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambandsins, telur að nefndin hafi misnotað upptökurnar úr vélunum. Nokkuð mörg sóttvarnarlög voru brotin í Ásmundarsal umrætt kvöld og hafa staðarhaldarar hlotið sekt fyrir, en gestirnir ekki.