Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Nautgripabú bætast við loftslagsvænan landbúnað

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Um þessar mundir auglýsa Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Skógræktin og Landgræðslan eftir fimmtán nautgripabúum til að taka þátt í verkefninu „Loftslagsvænum landbúnaði“.

Frá þessu er greint á vef Bændasamtaka Íslands en tilgangur verkefnisins er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu.

Tuttugu og sjö sauðfjárbú eru nú hluti verkefnisins sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynntu fyrir rúmum tveimur árum.

Fyrr í mánuðinum var samið um að bæta nautgriparæktendum við verkefnið, sem fá ráðgjöf, fræðslu og aðhald frá framangreindum stofnunum við að koma loftslagsmarkmiðum í framkvæmd.

Búin fá styrk til þátttökunnar og til efnagreininga og síðar er ætlunin að veita þeim árangurstengdar greiðslur. Nautgriparækt um allan heim leitar leiða til að minnka losun og hið sama er uppi á teningnum hér á landi.

Seint á síðasta ári greindi Herdís Magna Gunnarsdóttir, þá nýkjörinn formaður Landssambands kúbænda, frá því að bændur stefndu að því að verða kolefnishlutlausir innan tuttugu ára, eða fyrir árið 2040.