Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Mikið um vegaframkvæmdir í borginni á næstu dögum

29.06.2021 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Unnið verður við fjölfarna vegi frá klukkan 20 annað kvöld, miðvikudagskvöldið 30.júlí, ef veður leyfir. Þá stendur til að ljúka framkvæmdunum fyrir fimmtudagsmorgunn. Framkvæmdirnar verða bæði við Hringbraut og Kringlumýrarbraut í Reykjavík.

Stefnt er að því að malbika hægri akgrein og ramp á Hringbraut til austurs upp á Bústaðaveg sem báðum verður lokað á meðan á framkvæmdunum stendur. Þetta er um eins kílómetra kafli sem byrjar við gatnamót við Njálsgötu. Sama svæði verður lokað á milli klukkan 20 í kvöld og 02 í nótt þar sem verið er að fræsa. 

Sömu nótt verður jafnframt unnið á tæplega tveggja kílómetra kafla sem byrjar við Nýbýlaveg og nær að gatnamótum við Miklubraut. Þar stendur til að fræsa miðakgrein á Kringlumýrarbraut til norðurs og verður hún þess vegna lokuð ásamt einni aðliggjandi akgrein. Hægt verður að nýta sér hjáleið um hringtorg á Nýbýlavegi og þá aftur inn á Kringlumýrarbraut.  

Þá verður báðar akgreinar Sæbrautar við Laugarnes á 700 metra kafla lokaðar aðfaranótt föstudags 2.júlí. 

Svo segir á vefsíðu Vegagerðarinnar en þar er jafnframt að finna frekari upplýsingar um vegaframkvæmdir og væntanlegar lokanir. 

Ökumenn kurteisir og góðir að virða merkingar

Greint hefur verið frá því fyrr að nú sé umfangsmesta sumar í vegaframkvæmdum frá því fyrir hrun. Fulltrúi eftirlits hjá Vegagerðinni segir að meirihluti fólks virði skiltamerkingar og lokanir og sé almennt mjög kurteist. Þó séu einstaka aðilar sem lauma sér á vegi þar sem malbikið er enn of heitt og því enn lokað. Biðlað er til ökumanna að virða hraðatakmarkanir við vinnusvæðin en hann hefur verið lækkaður niður í 50 kílómetra á klukkustund við akreinarnar sem eru lokaðar.  Það sé of algengt að keyrt sé of hratt við vinnusvæðin sem stofnar starfsfólki í hættu.