Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hraðakstur talinn ástæða banaslyss á Suðurlandsvegi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Magnússon - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa álítur að kenna megi vanbúnaði ökumanns bifhjóls og of miklum hraða um banaslys sem varð á Suðurlandsvegi vestan við Stígá um miðjan ágúst í fyrra.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem birt var í gær. Slysið varð með þeim hætti að ökumaðurinn missti stjórn á hjólinu þegar það tók að skjálfa eða skakast til, skömmu áður en komið var að brúnni yfir Stígá. 

Ökumaðurinn féll af hjólinu, rann eftir veginum þar sem hann rakst utan í bifreið og hlaut við það þá áverka sem leiddu hann til dauða.

Haft er eftir ökumanni sem mætti bifhjólinu skömmu fyrir slysið að hann hafi þurft að víkja út í vegkant þegar hjólið tók að rása og stefndi yfir á rangan vegarhelming.

Hjálmur mannsins og fatnaður voru ekki talin til þess búin að veita nægilega vörn auk þess sem útreikningar sérfræðings benda til að hjólið hafi verið á 122 kílómetra hraða þegar slysið varð. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV