Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafa áhyggjur af frekari skriðum

29.06.2021 - 19:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svæði nærri þeim stað þar sem skriða féll í Varmahlíð í dag hefur verið girt af vegna hættu á frekari skriðuföllum. Sveitarfélagið Skagafjörður hafði í dag áætlað að framkvæmda jarðvegsskipti á veginum sem hrundi niður í aurskriðu um klukkan 16 í dag.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar ræddi aurskriðuna í beinni útsendingu í kvöldfréttum RÚV. Sigfús sagði Önnu Þorbjörgu Jónasdóttur, fréttamanni, að sveitarfélagði hafði orðið vart við jarðsig á Norðurbrúninni, ofan við Laugarveg á Varmahlíð síðla veturs.

Sérfræðingar frá ofanflóðasviði Veðurstofunnar sem og fulltrúar frá verkfræðistofum voru kallaðir til aðstoðar við að ákvarða næstu skref.

Vélar voru komnar á svæðið til þess að framkvæma áðurnefnd jarðvegsskipti en ákveðið var að hinkra aðeins eftir því að jarðvegur þornaði.

Mildi þykir að enginn var heima í húsunum tveimur á Laugarvegi þegar skriðan féll. Ekkert manntjón varð en talsverðar skemmdir eru á húsunum.

Sigfús segir að óttast sé um að frekari skriður geti fallið á svæðinu og hefur það verið girt af. Sex hús eru innan svæðisins og segir Sigfús það ljóst að enginn muni gista í þeim í nótt á meðan aðstæður eru metnar.

Andri Magnús Eysteinsson