Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gosvirkni virðist vera að komast í fyrra horf

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Virknin á gosstöðvununum við Fagradalsfjall virðist vera að færast í fyrra horf eftir að hafa dottið verulega niður í gærkvöld. Það er altént það sem lesa má út úr mæligögnum Veðurstofunnar, en bíða verður þess að þokunni létti við gosstöðvarnar áður en meira verið fullyrt þar um.

Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir virknina hafa minnkað töluvert um klukkan hálf níu í gærkvöld og haldið áfram að minnka fram yfir miðnætti, fyrir utan nokkra afmarkaða púlsa. Um tvö leytið í nótt tók virknin hins vegar að aukast á ný og hefur aukist stöðugt síðan.

Í samtali við fréttastofu á sjöunda tímanum í morgun sagði Sigþrúður að af óróagröfunum einum og sér megi ætla að allt stefni í að virknin komist innan skamms í sama horf og hún var áður en hún datt niður í gærkvöld. Hvort birtingarmynd óróans hefur eitthvað breyst í millitíðinni komi aftur á móti ekki í ljós fyrr en þokunni léttir. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV