Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gosið mögulega að breytast en alls ekki búið

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Nokkuð hefur dregið úr gosvirkni í gosstöðvunum við Fagradalsfjall í kvöld. Þetta má ráða af mæligögnum Veðurstofunnar, sem sýna nokkra afmarkaða púlsa með góðum hléum á milli og á Facebook-síðu Eldfjalla-og náttúruvárhóps Suðurlands var því velt upp, hvort mögulega væri hlé á gosinu. Svo er þó ekki, samkvæmt Sigþrúði Ármannsdóttur, náttúruvársérfræðingi á Veðurstofu Íslands, enda glitti enn í glóandi kviku, þrátt fyrir slæmt skyggni.

„Ég myndi nú telja að þessu gosi sé alls ekki lokið, því ég sé glitta í glóð þarna annað slagið. Það lagaðist aðeins skyggnið upp úr hálf-tólf, og þá sér maður greinilega glóð.“ 

Í samtali við fréttastofu sagði Sigþrúður erfitt að fullyrða mikið um hvað ráða megi af mæligögnum kvöldsins, enn sem komið er.  Einhver breyting geti vissulega hafa orðið á gosinu, og hún komi þá betur í ljós á næstu dögum.

„En þetta hefur verið svona frá klukkan hálfníu í kvöld. Þá datt óróinn niður og svo kom aftur smá gusa klukkutíma síðar sem stóð í einhverjar tíu mínútur og klukkan hálf-ellefu kom önnur sem stóð í tuttugu mínútur og klukkan hálf-tólf kom enn ein, þannig að þetta er kannski einhver breyting í hegðun gossins. Það verður bara að koma í ljós hvernig þetta verður, en gosið - það sést enn í glóð, þannig að það er enn á lífi."

- Þannig að þetta er bara eins og verið hefur, það er ólíkindatól þetta gos sem breytist oft en heldur svo áfram?

„Ég held það, já,“ segir Sigþrúður. 
 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV