Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekkert mál að ferðast um landið á rafbíl

29.06.2021 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Orkuseturs segir vel hægt að ferðast hringinn í kringum landið á rafbíl. Rafbílaeigandi sem ók frá Selfossi til Akureyrar segir ekkert mál að ferðast um landið á rafbíl.

12 þúsund bílar um rúmlega 400 stöðvar

Í byrjun árs 2015 voru rúmlega 300 raf- og tvinnbílar skráðir hér á landi. Þeim hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár en í dag eru þeir orðnir tæplega 12 þúsund. Nú þegar landsmenn fara á stjá að ferðast um landið, þá er stóra spurningin, eru hleðslustöðvarnar nægilega margar?

Síðasta sumar reyndi á innviðina

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs segir að þeim muni fjölga verulega á næstu árum. „Þetta er náttúrlega að elta þessa gríðarlegu rafbílavæðingu sem er í gangi sem er vel. Það var gott í fyrra þegar íslenskir rafbílaeigendur voru fastir heima og ferðuðust um land allt og það reyndi svolítið á innviðina þannig að það hefur batnað mjög mikið núna og margar stöðvar að koma,” segir Sigurður. 

Stöðvar um allt land

En hvar eru þessar stöðvar? Eins og staðan er nú þá er ekki til neinn miðlægur gagnagrunnur sem sýnir fjölda og staðsetningu allra stöðvanna. Sá staður sem kemst næst því er vefsíðan Plugshere.com en þar má finna kort sem sýnir um 90% stöðva landsins. Þá má einnig nálgast upplýsingar um stöðvar á heimasíðum Ísorku og Orku nátturinnar. 

„Rafbílaeigendur eru mjög lunknir við að finna hvar þeir geta hlaðið því þetta eru örugglega um 400 opnar stöðvar, hér og þar á landinu, út um allt. Við söfn, gististaði og á opnum stöðum þannig að þetta er út um allt,” segir Sigurður. 

Ekert mál að ferðast um á rafbíl

Við Hof á Akureyri er vinsæl hraðhleðslustöð. Þar hitti fréttastofa Hauk Gíslason ásatm fjölskyldu sinni en hann var að koma frá Selfossi á rafbíl. „Þetta var ekkert mál, það var bara að hafa hana full hlaðna áður en við lögðum af stað áður en við fórum af stað og eitt stopp á leiðinni og svo er nóg af hleðslustöðvum hér, svo það er ekkert mál,” sagði Haukur.