Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

47,9 stiga hiti í Kanada

29.06.2021 - 02:32
A roofer works on a new roof in a housing development while the sun beats down on him as the heat wave continues Thursday, June 17, 2021, in Phoenix. (AP Photo/Ross D. Franklin)
 Mynd: AP
Hitamet var slegið í Kanada á mánudag, aðeins sólarhring eftir að 84 ára gamalt hitamet í landinu var slegið. Hitinn fór mest í 47,9 gráður um klukkan hálf fimm síðdegis að staðartíma.

Mikil og hættuleg hitabylgja gengur nú yfir vestanverða Norður-Ameríku, alveg frá Oregon í suðri norður til Saskatchewan og Norðvestursvæðisins í Kanada í norðri. Hitinn fer þar óvíða undir 30 stig en þeim mun víðar yfir 40 stigin.

Heitara en heitast hefur orðið í Las Vegas

Fyrra hitamet í Kanada er frá árinu 1937, þegar 45 stiga hiti mældist á tveimur stöðum í Saskatchewan. Það var slegið á sunnudag, þegar 46,6 gráðu hiti mældist í bænum Lytton í Bresku Kólumbíu, um 260 kílómetra norðaustur af Vancouver. Í gær, mánudag, var hitinn svo kominn í 47.5 gráður í þessum sama bæ klukkan fjögur síðdegis og fór upp í 47,9 gráður áður en hann tók að lækka á ný.

Til samanburðar má geta þess að hæsti hiti sem mælst hefur í eyðimerkurborginni Las Vegas í Nevadaríki í Bandaríkjunum er 47.2 gráður. Meðalhiti í Lytton í júnímánuði er um 24 gráður.

Hiti gæti lækkað sums staðar en áfram hitabylgja annars staðar

Hitamet hafa fallið í tugatali í vesturhéruðum Kanada síðan á sunnudag. Veðurstofan segir að þessari „viðvarandi, hættulegu og sögulegu“ hitabylgju kunni að byrja að létta við suðurströnd Bresku Kólumbíu og í Yukon strax á morgun, en annars staðar muni hún að líkindum standa fram eftir viku og jafnvel fram í næstu viku þar sem verst lætur.

239 útköll sjúkrabíla vegna hitatengdra heilsuvandamála

Á vef kanadíska ríkisútvarpsins, CBC, segir að viðbragðsaðilar hafi sinnt óvenju mörgum útköllum um helgina vegna veikinda og áfalla sem rekja megi til hitans, eða 239. Allan júnímánuð í fyrra voru sambærileg útköll 14 talsins.

Hitavarnir trompa COVID-varnir

Óloftkældir skólar í Bresku Kólumbíu voru lokaðir í dag og meira að segja reglur um sóttvarnir vegna COVID-19 fengu sums staðar að víkja fyrir reglum um hitavarnir og fólki heimilað að brjóta gegn gildandi fjöldatakmörkunum til að koma sér inn á skuggsæl og/eða loftkæld svæði. 

Vinnuvernd Bresku Kólumbíu hvatti vinnuveitendur til þess í gær að íhuga að loka fyrirtækjum sínum og senda starfsfólkið heim, ef ekki væri hægt að tryggja öryggi þeirra í hitanum. Í tilkynningu Vinnuverndar segir að heilsu og lífi allra sem þurfi að vinna óvarðir við þær aðstæður sem nú eru uppi sé stefnt í voða.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV