
144 milljarða halli á ríkissjóði
Ríkisreikningi ársins 2020 hefur verið skilað.
Óhætt er að segja að ríkisreikningurinn sé í litlu samræmi við það frumvarp sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti haustið 2019. Þar var gert ráð fyrir að tekjur næmu 919 milljörðum á árinu og útgjöld sömu fjárhæð.
Þær forsendur fuku síðan út í veður og vind á vordögum þegar kórónuveiran skaut sér niður. Tapaðar skatttekjur, aukinn útgjöld í bótakerfinu og dýrar og fordæmalausar stuðningsaðgerðir settu strik í reikninginn. Niðurstaðan er þó betri en óttast hafði verið.
Skuldir ríkissjóðs hafa aukist hratt í faraldrinum. Í lok árs 2019 námu þær 22% af landsframleiðslu, en nú um áramót var hlutfallið komið upp í 30%. Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að skuldirnar vaxi ár frá ári til 2025, og hafi þá náð 58%.