Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skoða atvik í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) er með mál til skoðunar varðandi atvik sem varð í aðflugi vélar Icelandair frá Egilsstöðum til Reykjavíkur síðasta laugardag.

Sjónarvottur sem ræddi við fréttastofu um málið sagði að þegar vél Icelandair var á leið sinni til lendingar yfir Fossvogsdalnum skömmu fyrir hádegi hafi þyrla flogið í veg fyrir vélina. Vél Icelandair hafi þurft frá að hverfa, beygt af leið og hringsólað um stund yfir Kópavoginum áður en leiðin var greið til lendingar.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia segir í svari til fréttastofu að Isavia ANS, dótturfélag Isavia Ohf., sé með mál til skoðunar. „Isavia ANS hefur upplýst Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) um málið og það síðan ákvörðun RNSA hvort málið verður tekið til frekari meðferðar.“

Vélin sem um ræðir lenti heilu og höldnu á Reykjavíkurflugvelli 11:33 síðasta laugardag.

 

Andri Magnús Eysteinsson