Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja Breta og Dani vinna að flóttamannabúðum í Rúanda

epa09034070 Denmark's Prime Minister Mette Frederiksen attends a press conference in the Prime Minister's Office in Copenhagen, Denmark, 24 February 2021.  EPA-EFE/Jens Dresling / POOL  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Politiken
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, á í viðræðum við dönsk stjórnvöld um að standa saman að nýjum móttökustöðvum fyrir flóttafólk frá Afríku og verður þeim ætlaður staður í Rúanda.

Þetta herma heimildir breska blaðsins The Times innan úr ráðuneytinu.

Greinir blaðið frá því að lagafrumvarp sé í undirbúningi til að tryggja lagagrundvöll fyrirkomulagsins og verði það kynnt opinberlega von bráðar. Fyrirkomulagið er sagt eiga að tryggja að lífshættulegum sjóferðum flóttamanna yfir Ermarsundið fækki, en um 5.600 manns hafa farið þá leið það sem af er ári, gjarnan á ótraustum bátum upp á náð og miskunn smyglara. Líklegast er markmiðið þó ekki síður að fækka komu flóttamanna til landsins.

Danska leiðin vekur athygli

Danska þingið samþykkti í síðasta mánuði lög sem heimila stjórnvöldum að útvista hælisleitendaferlinu til ríkis utan Evrópusambandsins og eru viðræður við stjórnvöld í Rúanda þegar hafnar. Munu umsækjendur þá þurfa að sækja um alþjóðlega vernd í eigin persónu á landamærum Danmerkur, en þaðan verður fólkið flutt með flugvél til þess ríkis sem Danmörk hefur samið við að hýsa flóttamenn.  

Ef svarið er já frá dönskum stjórnvöldum þá fær fólk ekki að fara aftur til Danmerkur, heldur fær það hæli í útvistunarríkinu. Ef svarið er nei, þarf fólk að yfirgefa landið.

Ein helstu rök danskra stjórnvalda fyrir frumvarpinu voru einmitt að flóttafólk þyrfti ekki lengur að leita á náðir smygl­ara til að koma sér inn til Evr­ópu eða hætta lífi sínu í báts­ferð yfir Miðjarðar­haf. Rök sem halda ekki vatni í ljósi þess að umsækjendur þurfa eftir sem áður að komast á danska grundu til að geta sótt um. 

Danir eru fyrsta ríki Evrópu til að feta þessa braut og hafa lögin mælst misjafnlega fyrir. Víða hafa stjórnmálamenn hvatt til þess að leitað verði í hugmyndabanka Dana og vakti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, til að mynda máls á því í fyrirspurnatíma á Alþingi.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og ýmis mannréttindasamtök hafa aftur á móti gagnrýnt stefnuna, sagt lögin ganga gegn grundvallarreglum um alþjóðlega samvinnu og að með þessu séu ríki að víkja sér undan ábyrgð á flóttamannavandanum. 

Enginn hætti við að sækja um hæli í Evrópu vegna strangra skilyrða í Danmörku; fólk sæki einfaldlega um í öðrum ríkjum.