Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Næstum því ritskoðun á hugsunum lögreglumanna”

Mynd: RÚV / RÚV
Formaður Landssambands lögreglumanna segir niðurstöðu eftirlitsnefndar um Ásmundarsalarmálið líkjast ritskoðun á því sem lögreglumenn hugsa. Hann furðar sig á þeirri ítarlegu meðferð sem málið fékk hjá nefndinni, sem telur einkasamtal tveggja lögreglumanna í salnum á þorláksmessu ámælisvert.

Þar á meðal einn háttvirtur ráðherra

„Tilkynning um brot á reglum um lokun samkomustaða og brot á reglum um fjöldasamkomu. 40 til 50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands.”

Svo hljóðaði hluti dagbókarfærslu lögreglu að morgni aðfangadags, um sóttvarnarbrot í Ásmundarsal á Þorláksmessu þar sem fjármálaráðherra var staddur. Dómsmálaráðherra hringdi tvisvar í lögreglustjórann vegna færslunnar, staðarhaldarar voru sektaðir, málið fór fór fyrir þingnefnd og í byrjun júní skilaði nefnd um eftirlit með störfum lögreglu skýrslu - sem var lekið til fjölmiðla.

Skrýtið að láta lögmann toga sig í þessa átt

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, furðar sig á umfangi málsins. 

„Mér finnst mjög skrýtið að þessi nefnd hafi látið einhvern lögmann úti í bæ toga sig í þessa átt og taka við þessari kvörtun og fara að vinna svona mikið með hana,” segir Fjölnir. 

Lögreglan sinnti gífurlegum fjölda tilkynninga vegna brota á fjöldatakmörkunum eða grímuskyldu í faraldrinum. En Ásmundarsalarmálið er það eina sem hlaut viðlíka meðferð og athygli.

Ámælisvert samtal

Í skýrslu nefndarinnar er meðal annars skrifað upp úr samtali tveggja lögreglumanna sem heyrðist úr búkmyndavélum þeirra umrætt kvöld þar sem þau ræða uppákomuna: 

„Hvernig yrði fréttatilkynningin? 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar.. er það of mikið?” 

„Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það. Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis.. svona... framapotarar.” 

Þetta samtal telur nefndin geta verið ámælisvert og eigi að senda til frekari meðferðar. Sömuleiðis eigi að skoða verklag við birtingu úr dagbók. Þess ber að geta að lögreglumennirnir tveir komu ekkert nálægt dagbókarfærslunni.

Vill standa vörð um hugsanir lögreglumanna

„Þarna er þetta næstum því ritskoðun á hugsunum lögreglumanna,” segir Fjölnir. „Ég hefði nú kannski viljað standa vörð um að lögreglumenn séu frjálsir sínum hugsunum eins og aðrir borgarar. Og svo hitt, þá er þeirra persónulega tal bara skyndilega komið í fjölmiðla, væntanlega bara orðrétt.” Hann segir mikla umræðu hafa skapast meðal lögreglumanna um leið og fréttin birtist um helgina.  

„Og ég held að ég geti sagt að það hafi orðið töluverð reiði og pirringur,” segir hann.

„Þess vegna finnst mér þetta mjög alvarlegt, því ég hef leitað mér upplýsinga um að þau eru ekki að segja þetta í heyranda hljóði heldur standa þau afsíðis að tala sín á milli og eru bara að bíða eftir því að fólkið yfirgefi húsið.”