Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Danskir hjólreiðamenn telja sig hlunnfarna

28.06.2021 - 21:23
epa07297775 A man walks by a souvenir store in the city centre of Copenhagen, Denmark, during the sunny day, 18 January 2019.  EPA-EFE/SRDJAN SUKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hjólreiðamenn í Danmörku telja sig bera heldur skarðan hlut frá borði í nýrri samgönguáætlun danska þingsins sem litið hefur dagsins ljós. Aðeins tvö prósent framkvæmdafjár renna til hjólreiðainnviða.

Ný samgönguáætlun áranna 2022-2035 leit dagsins ljós í dag, en hún er afrakstur samvinnu nær allra flokka á danska þinginu. Danir hafa lengi státað af einu besta hjólreiðaneti Evrópu, í það minnsta í höfuðborginni og engin breyting verður á því ef marka má orð ríkisstjórnar jafnaðarmanna.

Til stendur að verja 161 milljarði danskra króna (3.200 ma. ISK) í samgöngumannvirki á tímabilinu, en um tveir þriðju hlutar fjárins fara í nýframkvæmdir og þriðjungur í viðhald á eldri innviðum. Markmiðið er að sögn að tengja Danmörku betur saman og auka veg grænna fararmáta.

Lestarkerfið stórbætt

Stærstur hluti fer í almenningssamgöngur, eða 86 milljarðar danskra króna. Þetta jafngildir því að íslenska ríkið verði 90 milljörðum íslenskra króna í almenningssamgöngur á fimmtán árum, sé miðað við höfðatölu.

Meðal framkvæmda eru sjálfvirknivæðing S-lestanna, ofanjarðarlestarkerfis Kaupmannahafnar en með því má lækka rekstrarkostnað þrátt fyrir að ferðatíðni verði aukin. Þá verður byggt við kerfið, meðal annars alla leið til nágrannaborgarinnar Hróarskeldu, og nýjar og hraðari lestir fengnar á sumar leiðir. Lestarsamgöngur á Vestur-Fjóni verða einnig bættar til muna með nýrri leið sem nær frá Odense alla leið að Middelfart.

Metnaðarlaust, segja hjólreiðamenn

64 milljörðum danskra króna verður varið í vegaframkvæmdir og ýmsir nýir hraðvegir lagðir um allt land. Aðeins þrír milljarðar danskra króna renna hins vegar til hjólreiðaframkvæmda, og hjá landssamtökum danskra hjólreiðamanna þykir það heldur lítilfjörlegt.

Samtökin eiga sér þann draum að hjólreiðastígar verði lagðir meðfram nær öllum þjóðvegum landsins og svokölluðum hraðhjólabrautum fjölgað. Það væru þá 2.275 kílómetrar af nýjum stígum.

Klaus Bondam, formaður landssamtakanna, segir samkomulagið metnaðarlaust en fagnar því þó að tekist hafi að fá einum milljarði bætt í hjólreiðaframkvæmdir frá því sem upphaflega stóð til.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV