Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Birting efnis úr myndavélum þarf að hafa skýran tilgang

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sviðsstjóri Persónuverndar segir það grundvallaratriði að tilgangur vinnslu upplýsinga úr búkmyndavélum lögreglumanna sé skýr áður en hún fer fram. Ekki er ljóst hvort eftirlitsnefnd með störfum lögreglu hafi mátt birta númer lögreglumanna í skýrslu sinni.

Formaður Landssambands lögreglumanna gagnrýnir eftirlitsnefnd með störfum lögreglu og segir hana hafa gengið of langt í rannsókn sinni á Ásmundarsalarmálinu. Í skýrslu nefndarinnar er einkasamtal tveggja lögreglumanna, þar sem þau tala um fólkið í salnum, ritað orðrétt. Skýrslan var send fjölmiðlum. 

Persónugreinanleg lögreglunúmer

Vigdís Eva Líndal, sviðsstjóri hjá Persónuvernd, undirstrikar að ekki sé hægt að tjá sig um einstök mál, en almennt þurfi tilgangur vinnslu þessara upplýsinga að vera alveg skýr.  

„Segjum vegna öryggi ríkisins eða einhvers annars, þá er óheimilt að nota upplýsingarnar í öðrum og ósamræmanlegum tilgangi,” segir hún. „Alveg sama hvort það er lögreglan eða einhver annar, fyrirtæki úti í bæ, að við sem einstaklingar verðum að fá að vita af því að vinnslan fari fram og hver sé tilgangur hennar. Í hvað upplýsingar verði notaðar til dæmis.”

Nefndin birtir númer lögreglumannanna tveggja í skýrslu sinni. Vigdís segir að sama skapi, að almennt séð þurfi að liggja þar fyrir tilgangur með birtingunni. 

„Númer lögreglumanna, geta verið persónugreinanleg og þannig fallið undir persónuverndarlöggjöfina. Og þá þyrfti að skoða hvort það hafi verið gengið lengra en þörf er á.”

Lögreglumenn veigri sér við að kveikja

Persónuvernd hefur ekki fengið erindi frá lögreglunni, en Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir málið grafalvarlegt. Mjög margt fari óvart inn á vélarnar, sérstaklega í ljósi þess að það komi fyrir að fólk gleymi að slökkva á vélunum eftir að verkefni líkur. „Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að lögreglumenn veigri sér við að kveikja á myndavélunum,” segir hann. 

Fréttin hefur verið uppfærð.