Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

11 ferðamenn smitaðir - 4 þeirra fullbólusettir

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjórir af ellefu ferðamönnum sem greinst hafa smitaðir af kórónuveirunni síðustu daga, voru fullbólusettir. Þetta eru smit sem greindust frá síðasta fimmtudegi. Sóttvarnalæknir hvetur bólusetta landsmenn til að fara í sýnatöku finni þeir fyrir einkennum. 

Ferðamennirnir greindust ýmist þegar þeir hugðust fara úr landi og sóttu um vottorð um veiruleysi eða í skimun eftir fimm daga sóttkví við komuna til landsins. Af þessum ellefu ferðamönnum voru fjórir fullbólusettir. 

Eru einhverjar líkur á því að þau hafi smitast hér á Íslandi?

„Mjög ólíklegt. Það er langlíklegast að þau hafi smitast á leiðinni til landsins og það byggi ég á því að við erum með nánast ekkert af veiru í landinu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Raðgreining liggur ekki fyrir. Þá er ekki vitað til þess að ferðamennirnir hafi smitað út frá sér. Sóttvarnalæknir segir að gerðar hafi verið rannsóknir sem bendi til þess að bólusettir smiti síður aðra en óbólusettir.  

Finnst þér þetta kalla á einhverjar breyttar áherslur eða aðgerðir?

„Nei, ekki á þessari stundu. Ekki nema við þurfum að fylgjast áfram vel með smitum innanlands. Við þurfum áfram að hvetja fólk með einkenni til að mæta í sýnatöku. Það hefur heldur dalað núna undanfarið samt veit ég að það er mikið um öndunarfærasýkingar í samfélaginu. Þannig að við viljum áfram hvetja fólk til þess að mæta í sýnatöku hvort sem það er bólusett eða ekki ef það fær einkenni sem geta bent til COVID,“ segir Þórólfur.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir