Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Þetta voru mistök og hann dó næstum því“

27.06.2021 - 19:57
Kona mannsins sem leitað var að við gosstöðvarnar í rúman sólarhring segist ekki geta lýst þakklæti sínu til björgunarfólks. Biðin hafi verið hræðileg og vonin farin að dvína.

Bandaríski ferðamaðurinn Scott Estill fannst á áttunda tímanum í gærkvöld eftir að hans hafði verið leitað í á annan sólarhring nærri gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Scott varð viðskila við konu sína. Hann fannst vestan við Núpshlíðarháls í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem leiðir skildi.

„Það sem leiddi okkur í leit á þessu svæði var að það höfðu fundist þarna för í mosa og þá beindum við leitarflokkum þangað, gangandi björgunarsveitarmönnum og þeir gengu fram á hann þarna á þessum stað,“ segir Gunnar Schram yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum.

Becky Estill, eiginkona Scotts segir að þeim hjónum hafi orðið á.

„Okkur urðu á hrapalleg mistök; Við erum frá Colorado og erum kunnug fjallaferðum, hvað beri að gera. Þetta voru lokin á ferðalaginu og við vorum kærulaus. Hann var ekki m,eð símann sinn og við vorum á jeppaslóð og ég hugsaði sem svo; Hvernig er hæt að týna jeppaslóð. Ég fer á undan, veðrið er afleitt. Maður skyldi aldrei yfirgefa ferðafélaga sinn og ætíð vera með vatn og snjallsímann. Þetta voru mistökin sem að við gerðum. Og þetta varð niðurstaðan; hann dó næstum því,“ segir Becky.

Fyrstu viðbrögð hennar voru ofsahræðsla og oföndun. Hún hringdi í 112 og segir að lögreglan hafi strax komið og síðan strax haft samband við björgunarsveitir. Hún segist ekki eiga orð yfir hversu fagmannleg vinnubrögðin voru.

„Ég á ekki orð tli að lýsa þessu, svo ótrúlegt sem það var. Og ekki heldur til að tjá þakklæti okkar.“

Hún segir að biðin hafi verið hræðileg. Veðrið hafi verið hræðilegt og hún vissi að maður sinn var ekki rétt búinn fyrir slíkar aðstæður, hún hafi ekkert getað gert annað en vera ekki fyrir.

„Til allrar hamingju var Rauði krossinn til staðar og fékk alveg ótrúlegan stuðning frá Erlu og kollegum hennar. Og björgunarsveitarfólkinu sem við vorum reglulega í sambandi við.“

Alls staðar hafi hún mætt hlýju viðmóti. Hún er sjálf læknir og segist hafa gert sér vel grein fyrir hversu alvarleg staðan var og vonin hafi verið farin að dvína. En síðan hafi fréttirnar komið um að maður hennar væri fundinn á lífi.

„Ég var bæði sjokkeruð og trúði þessu ekki. Erla sagði: Óttastu að vera glöð? Já, þar til ég hitti hann. Þá óttast ég að vera glöð.“

Rúnar Gíslason rannsóknarlögreglumaður á Suðurnesjum tók skýrslu af Scott í morgun og segir að hann hafi dottið og rotast. Hann hafi ekki orðið var við fólk, en skynjað þyrlu fljúga yfir. Hann hafi verið búinn að gefa upp alla von um að finnast þegar björgunarsveitarfólk gekk fram á hann. Becky segir hann skrámaðan, hafa fengið höfuðhögg, hann sé bólginn og nýrun hafi verið farin að gefa sig vegna ofþornunar, auk þess sem hann ofkældist.  Hún segir Íslandsferðina hafa verið frábæra, og ekki aðeins landið sjálft. 

„Þið eruð hlýlegasta og samúðarfyllsta fók sem ég hef nokkru sinni kynnst. Svo fagleg og ég get bara ekki lofað það nóg.“

Rúnar Gíslason segir að Scott Estill hafi þótt ótrúlegt að heyra hveru mikið var gert til að reyna að finna hann og það gladdi hann að forseti Íslands hefði meira að segja tjáð sig um málið, en Guðni Th. Jóhannesson skrifaðii á Facebook í gær að hann fagnaði að hömlum vegna COVID-19 hefði verið aflétt og hann fagnaði afmæli sínu og vonast til að leitin að Scott Estilæl skilaði árangri. Og þau hjón, Becky og Scott Estill vilja koma þakklæti á framfæri.

„Guð blessi ykkur fyrir að gefa af tíma  ykkar til að sinna þessu; svona hugsunarlausu fólki... Þið eruð dásamleg.“