Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Síbreytilegt sólúr sýnir Ásmundarsafn í nýju ljósi

Mynd: RÚV / Menningin

Síbreytilegt sólúr sýnir Ásmundarsafn í nýju ljósi

27.06.2021 - 10:00

Höfundar

Sirra Sigrún Sigurðardóttir hefur tekið Ásmundarsafn í Laugardal traustataki og breytt húsinu í risavaxið og litríkt sólúr.

Sýningin nefnist Ef lýsa ætti myrkva. Þar hefur Sirra nýtt bygginguna sjálfa til að útbúa nýtt verk sem er svo aftur sett í samhengi við valin verk eftir Ásmund Sveinsson.

„Þetta er eiginlega stór rýmisteikning,“ útskýrir Sirra. „Það er spegill uppi á þakinu sem varpar sólinni á langvegginn í bogaskemmunni. Þar myndast sólblettur sem færist eftir veggnum frá vestri til austurs yfir daginn. Listasafnið hafði samband við mig fyrir ári síðan með þá hugmynd að ég gerði sýningu í samtali við verkin hans Ásmundar. Svo fór ég bara að horfa á bygginguna sjálfa sem skúlptúr og ákvað að fara í samtal við hana.“

Sirra segir að það hafi verið erfitt að sjá útkomuna fyrir sér áður en verkið var komið upp. 

„Verkið er síbreytilegt eftir því hvernig veðrið og birtan er. Það verður líka gaman að fylgjast með því yfir sumarið og þegar haustið læðist að okkur aftur.“

Fjallað var um Ef lýsa ætti myrkva í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.