Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Prófa bóluefni gegn beta-afbrigði kórónuveirunnar

27.06.2021 - 14:41
epa09074881 (FILE) - A vial of AstraZeneca's Covid-19 vaccine stored in Movianto in Oss, The Netherlands, 12 February 2021 (reissued 14 March 2021). The Dutch health ministry on 14 March 2021 said it was suspending the AstraZeneca vaccine rollout, just days after pressing ahead with its use.  EPA-EFE/Remko de Waal
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Bresk-sænska lyfjafyrirtækið AstraZeneca hóf í dag prófanir á nýju bóluefni við beta-afbrigði kórónuveirunnar, sem kennt hefur verið við Suður-Afríku.

Fyrirtækið þróaði efnið í samstarfi við Oxford-háskóla í Bretlandi, rétt eins og fyrri bóluefni fyrirtækisins. Alls taka 2.250 manns þátt í prófuninni, frá Bretlandi, Suður-Afríku, Brasilíu og Póllandi, bæði fólk sem hefur nú þegar fengið bóluefni við COVID-19 og óbólusettir.

Yfirmaður bóluefnarannsókna við Oxford-háskóla segir mikilvægt að halda áfram rannsóknum til þess að tryggja að bóluefni nái yfir stökkbreytt afbrigði veirunnar. Nýja efnið svipar mjög til þess eldra, með lítilsháttar breytingu á erfðaefni.

Suður-Afríska afbrigði veirunnar hefur greinst í að minnsta kosti 20 ríkjum og er talið meira smitandi en flest önnur. Talið er að stökkbreyting afbrigðisins hjálpi veirunni að forðast þá vörn sem þau bóluefni veita sem nú eru í notkun.