Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Leit heldur áfram á gosstöðvunum í dag

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Um 50 manns eru nú við leit bandarískum ferðamanni um sextugt sem varð viðskila við eiginkonu sína á gosstöðvunum við Fagradalsfjall um þrjú leytið í gær. Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn í lögreglunni á Suðurnesjum, segir að maðurinn sé vel á sig kominn en ekki búinn til langrar útivistar.

„Að okkar mati kannski ekki búinn undir veður eins og var í gær, rigning og nokkur vindur og síðan bættist við svartaþoka.“

Þyrlusveit landhelgisgæslunnar leitaði úr lofti í nótt. 

„Það var lágskýjað hérna og svartaþoka um tíma og engar aðstæður fyrir leit úr lofti en um leið og aðstæður skánuðu þá bættist þyrla gæslunnar í leitarhópinn. 

Vaktaskipti voru í leitinni á áttunda tímanum í morgun. Rúmlega 80 manns og nokkrir leitarhundar sem höfðu verið við leit frá því í gærkvöld fór þá heim til hvíldar og nýr hópur tók við keflinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg er búið að kalla út björgunarsveitir af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæði, Suðurlandi og Vesturlandi til að halda áfram leit í dag. 

Bragi Valgeirsson tökumaður RÚV tók meðfylgjandi myndskeið.