Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonskuveður setur fótboltamót í uppnám

25.06.2021 - 21:14
Appelsíngul viðvörun hefur verið í gildi í dag víða um land og verður að öllum líkindum fram eftir morgni. Á Norðurlandi vestra er veðrið einna verst og fer versnandi.

Miklar kviður

Á Norðurlandi vestra hefur veðrið verið einna verst. „Það er appelsínugul viðvörun fyrir Norðurland vestra og Strandir sem gildir fram í fyrramálið og það er spáð mjög vondu veðri, vindstyrk hér á svæðinu er spáð 20-30 metrum á sekúndu og áætlað að það fari í 40 metra í hviðum. Þannig að veðurspáin er ekki glæsileg,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki.  

Lögreglan beinir því til fólks sem hyggst fara í ferðalög að skoða veðurspá.

Fótboltamót stelpna í uppnámi

Leið margra liggur til Sauðárkróks á Steinullarmót Tindastóls, en áætlað er að 700 stelpur í 6. flokki af öllu landinu keppi þar í fótbolta. Þetta vonskuveður kom nokkuð aftan að mótshöldurum á Sauðárkróki sem þurftu að hafa hraðar hendur við endurskipulagningu í samræmi við veðurviðvaranir.

„Við erum sem sé búin að breyta skipulagi mótsins strax þannig að við erum ekki að fara að halda upprunalegri dagskrá,“ segir Helgi Freyr Margeirsson, mótsstjóri. Aðalatriðið sé að stelpurnar fái að spila einhverja leiki en þó ekki að það verði til þess að fólk leggi af stað í vitlausu veðri. Mótinu sjálfu verður því frestað í takt við veðurspá og ef þær geta ekki keppt fyrr en á sunnudag verði það að vera svo.

Helgi segir stórkostlegt að sjá hvað allir á Sauðárkróki leggist á eitt til að láta mótið ganga upp. „Svo erum við að bjóða öllum gistingu inni, þeim sem óska eftir því og það er fólk hér á svæðinu sem er búið að leggja til íbúð, herbergi heima hjá sér, fellihýsi, hjólhýsi. Fólk er að taka vel í þetta,“ segir Helgi.

Tjaldsvæði flutt til vegna veðurs

Búið var að skipuleggja sérstakt tjaldsvæði fyrir gesti mótsins. Það liggur hins vegar þannig að ekkert skjól er fyrir þeim mikla vindi sem þar er. 

„Það voru bara svo margir komnir áður en þessi viðvörun skall á, þannig að við höfum svolítið bara verið í að flytja fólk til. Þannig að við höfum verið að dreifa fólki svolítið og koma því í var. Þannig að við viljum helst, alla vega næstu nótt að fólk sé komið í skjól,“ segir Hildur Þóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Tjöldum í Skagafirði.