Krafla Magma Testbed er viðamikið verkefni, 38 rannsóknarstofnanir og fyrirtæki frá 11 löndum koma að því en Georg - rannsóknarklasi í jarðhita leiðir verkefnið. Þarna er á ferðinni stórhuga fólk. Verkefnið er dýrt og tæknilega flókið. Það á að setja upp tilraunastofu í kviku- og eldfjallafræðum við Kröflu, segir Hjalti Páll Ingólfsson framkvæmdastjóri GEORGs.
„Í rauninni er kvikuhólf þarna sem er eina kvikuhólfið í heiminum sem vitað er að er á tveggja kílómetra dýpi,“ segir Hjalti Páll. „Við ætlum okkur að nýta það tækifæri sem við höfum hér, einstakt tækifæri, til að búa til ákveðinn gang eða aðgengi að kvikuhólfinu í þessari rannsóknarmiðstöð og svara þarf af leiðandi alls konar rannsóknarspurningum, bæði hvað varðar eldfjallafræði og áhættugreiningu í sambandi við eldfjallafræði og eins og hvernig getum við skilið betur svona kvikupoka sem liggur í jarðskorpunni? Hvaða merki sendir hann á yfirborðið? Hvernig væri hægt að nýta svona kvikupoka til orkuframleiðslu og þá miklu hagkvæmari orkuframleiðslu?“
Áður borað ofan í kvikuna, en óvart
Það er vitað að kvikan liggur á þeim stað sem ætlunin er að bora, vegna þess að árið 2009 stóð til að bora 4,5 kílómetra ofan í jarðskorpuna - í fyrsta hluta annars tilraunaverkefnis, Íslenska djúpborunarverkefnisins. Það þóttu sjálfsagt vonbrigði þá þegar ekki var hægt að bora lengra og gler, það er að segja nýstorknuð kvika, kom upp með bornum. En segja má að það hafi falist ákveðin heppni í þeirri óheppni að lenda á hinum áður óþekkta kvikupoka.