Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja setja mælitæki í kviku undir Kröflu

25.06.2021 - 16:30
Mynd: RÚV / RÚV
Til stendur að bora ofan í kvikupoka við Kröflu, koma þar fyrir mælitækjum og beintengjast þannig kvikunni. Verkefnið kallast Krafla Magma Testbed og er hluti af fyrirhugaðri 100 milljóna bandaríkjadala tilraunastofu í kviku- og eldfjallafræði við Kröflu.

Krafla Magma Testbed er viðamikið verkefni, 38 rannsóknarstofnanir og fyrirtæki frá 11 löndum koma að því en Georg - rannsóknarklasi í jarðhita leiðir verkefnið. Þarna er á ferðinni stórhuga fólk. Verkefnið er dýrt og tæknilega flókið. Það á að setja upp tilraunastofu í kviku- og eldfjallafræðum við Kröflu, segir Hjalti Páll Ingólfsson framkvæmdastjóri GEORGs. 

„Í rauninni er kvikuhólf þarna sem er eina kvikuhólfið í heiminum sem vitað er að er á tveggja kílómetra dýpi,“ segir Hjalti Páll. „Við ætlum okkur að nýta það tækifæri sem við höfum hér, einstakt tækifæri, til að búa til ákveðinn gang eða aðgengi að kvikuhólfinu í þessari rannsóknarmiðstöð og svara þarf af leiðandi alls konar rannsóknarspurningum, bæði hvað varðar eldfjallafræði og áhættugreiningu í sambandi við eldfjallafræði og eins og hvernig getum við skilið betur svona kvikupoka sem liggur í jarðskorpunni? Hvaða merki sendir hann á yfirborðið? Hvernig væri hægt að nýta svona kvikupoka til orkuframleiðslu og þá miklu hagkvæmari orkuframleiðslu?“

Áður borað ofan í kvikuna, en óvart

Það er vitað að kvikan liggur á þeim stað sem ætlunin er að bora, vegna þess að árið 2009 stóð til að bora 4,5 kílómetra ofan í jarðskorpuna - í fyrsta hluta annars tilraunaverkefnis, Íslenska djúpborunarverkefnisins. Það þóttu sjálfsagt vonbrigði þá þegar ekki var hægt að bora lengra og gler, það er að segja nýstorknuð kvika, kom upp með bornum. En segja má að það hafi falist ákveðin heppni í þeirri óheppni að lenda á hinum áður óþekkta kvikupoka.

Mynd: Sigrún Björg Aradóttir / Sigrún Björg Aradóttir
Hér má sjá frétt RÚV frá 2009 um djúpborunina við Kröflu sem endaði ofan í kviku.

„Sú þekking skapar þetta tækifæri núna, að bora viljandi í þessa kviku og búa til svona rannsóknaraðgengi að kvikupoka sem liggur í jarðskorpunni,“ segir Hjalti Páll. „Hugmyndin til lengri tíma er að búa til innviði sem hægt er að hafa opna fyrir rannsóknarmenn að koma og svara sínum spurningum hvað varðar bæði kvikufræði eða eldfjallafræði og jarðhita og orkuvinnslu og nýsköpun í kringum það. Alls konar mælitæki sem menn vilja prófa við erfiðar aðstæður og mikinn hita og náttúrulega þessa efnafræði sem er í jarðhitavökva í svona háum hita og miklum þrýstingi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Hjalti Páll Ingólfsson framkvæmdastjóri GEORG.

Hjalti Páll bendir á að þekking á jarðskorpunni sé mikið til byggð á kenningum. „Við sáum það nú bara á Reykjanesi að það voru misgóðar kenningar og menn hafa lært mjög mikið þegar kvikan kom upp þar. Það sem við sjáum fyrir hér er að geta búið til beintengingu niður. Við borum í kvikuna, borum ákveðinn sokk ofan í kvikuhólfið með því að kæla vel á undan og koma fyrir mælitækjum í kvikuhólfinu. Þegar kvikan bræðir aftur sokkinn lokast mælitækin inni og við erum komin með beintengingu inn og þá getum við farið að staðreyna kenningar,“ segir Hjalti Páll.  „Ef við sjáum einhverjar hreyfingar á yfirborðinu eða einhver merki á yfirborðinu þá getum við betur skilið hvort að þær kenningar sem að nú eru til standist eða séu kannski eitthvað rangar.“

Þið eruð sem sagt að tala um að færa mælitæki ofan í þennan kvikupoka, bráðna þau ekki? 

„Ja sko, það eru til mælitæki sem virka á rannsóknarstofum. Það er kannski mesta áskorunin að hafa mælitæki sem þola þennan hita í ákveðnu tilraunastofuumhverfi bara 1-2 metra frá þér, en er svolítið annað að stilla því upp tvo kílómetra ofan í jörðinni. Þannig að það er vissulega ein af þessum stóru áskorunum. En við vitum að það er til tækni sem þolir þessar aðstæður. Spurningin er bara hvort að við náum að koma þeim fyrir þarna á góðan hátt þannig að þær virki,“ segir Hjalti.

Verkefninu hefur verið skipt upp í nokkra hluta. Sá fyrsti er hagkvæmnisathugun. Í henni felst að meta tæknilegar áskoranir, hvaða aðferð á að nota við borun og skilgreina rannsóknarspurningar. Svo þarf að ákveða rekstrarform tilraunastofunnar og huga að fjármögnun til lengri tíma. Hjalti telur raunhæft að hægt verði að byrja að bora eftir þrjú ár. Það er að segja, fáist fé til þess að bora tilraunaholu. 

Myndu vilja bora niður fyrir kviku

„Ef að það gengur allt saman vel og við náum að halda þessari opnun niður í kvikuhólfið til lengri tíma, þá náttúrulega opnast rosalega mörg tækifæri til að skilja þetta betur, bora niður fyrir kvikuna, í gegnum hana og fjölga holum þarna í kring eða nýta þær holur sem að þegar eru og fá í rauninni alveg einstakan skilning á svona eldfjalli, sem eru mjög víða í heiminum. Þetta er vissulega öðruvísi en Reykjanesið þar sem kvikan kemur beint frá möttli, þetta er líkara því sem er í Eyjafjallajökli og Kötlu þar sem liggur eldri kvika eða kvikuhólf sem nær einhvern veginn að þroskast í jarðskorpunni og síðan kemur ný kvika þar inn í og startar alls konar efnafræði, sem við þekkjum.“

Eins og fyrr segir kom það fólki nokkuð á óvart á sínum tíma að einmitt þar sem borað var við Kröflu, skyldi leynast kvika. 

„Þarna sjá menn líka tækifæri til að skilja betur hvernig hægt er að finna svona kviku,“ bendir Hjalti Páll á. „Menn vita að einhvers staðar í kringum Napólí á Ítalíu, í Bandaríkjunum, þ.e. á Vesturströndinni eru mjög víða svona aðstæður þar sem menn gera ráð fyrir að séu svona pokar og telja sig vita hvar en samt ekki nákvæmlega hvernig hegða sér og þarna eru gríðarleg mikil tækifæri til að besta eftirlit með svona kvikupokum, með því að fá beina tengingu niður,“ segir Hjalti Páll. „Þess vegna er svo gríðarlega mikill áhugi alls staðar í heiminum á því að fá að vera með á rannsóknarstofum sem snúa að þessu, frá Bandaríkjunum, Ítalíu og Japan þar sem svona aðstæður eru.“

Milljarðaverkefni í nokkrum fösum

Þetta hljómar eins og verulega peninga þurfi til - hvað kemur tilraunastöðin til með að kosta, og hver á að borga? 

„Auðvitað kostar þetta gríðarlega peninga. Þetta er eitt af metnaðarfyllri verkefnum sem við höfum komið að, Íslendingar, eða við vonumst til að geta komið því á þann stað,“ segir Hjalti. „Við gerum ráð fyrir að undirbúningsfasinn sé um það bil 500 milljónir og við höfum fengið stofnstyrk frá ríkinu upp á 100 milljónir sem við ætlum að nýta í þetta. Við sjáum fyrir okkur að fá styrk frá Bretlandi og frá Rannís til að styðja við þessar tæknilegu og vísindalegu áskoranir. Síðan höfum við fengið peninga frá Ítalíu og síðast en ekki síst fengum við 1,5 milljón bandaríkjadala frá ICDP - International Continental Scientific Drilling Program. Við getum notað 300 þúsund í undirbúninginn og svo restina, 1200 þúsund, í borunina sjálfa ef við fáum jákvæðar niðurstöður úr stúdíunni. Borunin sjálf hleypur svo á einhverjum tugum milljónum dollara því við viljum gera þetta vel, af góðum efnum og miklum gæðum, þannig að við sjáum fyrir okkur að muni kosta einhverja 25 milljónir bandaríkjadali í viðbót. Til lengri tíma sjáum við að þetta er örugglega 100 milljón dala verkefni til lengri tíma ef að allt gengur upp.“

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV