Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er ekki dagur til að vera að ferðast“

Mynd með færslu
 Mynd: Valgeir Örn Ragnarsson - RÚV
Fólki ætti ekki að vera á ferðinni í norðvesturhluta landsins í dag, frá Breiðafirði að Norðurlandi eystra. Vonskuveður er við það að skella á. Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að vind lægi ekki fyrr en í fyrramálið. „Þetta er ekki dagur til að vera að ferðast. Þetta er bara vonskuveður. Þetta er ekki góður dagur til ferðalaga og alls ekki til að vera í fjallgöngum,“ segir hann. 

„Það eru viðvaranir úti, appelsínugular fyrir norðvestanvert landið. Suðvestan hvassviðri, stormur, mjög hvassar vindhviður við fjöll. Spáin hefur í raun ekkert breyst frá því í gær. Þetta vonskuveður er á leiðinni,“ segir Haraldur. 

Hvar hvessir helst?

„Þetta er norðvesturfjórðungurinn má segja. Þetta er norðanvert Snæfellsnes, Breiðafjörður, Vestfirðir, Strandir og Norðurland vestra og alveg austur í Eyjafjörðinn. Eyjafjörður fylgir þessu líka.“

Ertu með ráðleggingar handa fólki sem er á ferðalagi?

„Bara vera helst ekki á ferðinni og sérstaklega ekki ef fólk er með aftanívagna, hjólhýsi eða þess háttar. Þetta er ekki dagur til að vera að ferðast,“ segir Haraldur. Sama máli gildi um fjallgöngur. „Þetta er bara vonskuveður. Þetta er ekki góður dagur til ferðalaga og alls ekki til að vera í fjallgöngum.“

Er einhver úrkoma?

„Það mun rigna aðallega á Vesturlandi. En það gengur tiltölulega fljótt yfir. Rigningin verður að mestu búin í kvöld.“

Lægir í kvöld eða nótt?

„Þetta veður stendur í allan dag en svo lægir í fyrramálið.“

Þú hvetur fólk til að bíða veðrið af sér sem er þarna á Norðvesturlandi?

„Já, alveg eindregið,“ segir Haraldur.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV