Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur samskiptavanda hafa valdið óánægju á Kleppi

Mynd með færslu
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. Mynd: RÚV
Umboðsmaður Alþingis telur að samskiptavandi á réttargeðdeild og öryggisgeðdeild Landspítalans á Kleppi hafi orsakað óánægju og óöryggi starfsfólks. Þetta er á meðal þeirra ályktana sem umboðsmaður dregur af heimsókn sinni á Klepp í síðustu viku, sem fréttastofa fjallaði um á þriðjudag.

Umboðsmaður Alþingis fór í eftirlitsferð á Klepp á föstudaginn í síðustu viku, ásamt starfsfólki sínu, til að ræða við vistfólk, starfsfólk og stjórnendur. Tilefnið var ekki síst fréttaflutningur fréttastofu af slæmum aðbúnaði á deildunum. Umboðsmaður hefur nú sent forstöðumanni geðþjónustu á Landspítalanum bréf um það sem hann varð áskynja í heimsókninni. 

Samskiptavandi á deildunum

Í bréfinu segir að af viðtölum við starfsfólk og stjórnendum að dæma hafi samskiptavandi verið til staðar á deildunum sem „hafi lett til þess að einhver hluti starfsmanna hafi upplifað óánægju eða óöryggi í starfi“. 

Þá segir að hins vegar sé ljóst að stjórnendur séu meðvitaðir um vandann og hafi gripið til ákveðinna ráðstafana til að bregðast við honum. 

Einnig segir að af viðtölum við sjúklinga og starfsfólk verði ekki annað ráðið en að meðferð sjúklinga sé almennt í samræmi við mannúð og mannvirðingu. Viðmót starfsfólks í garð sjúklinga virðist hlýlegt og einkennast af virðingu. 

Umboðsmaður hyggst því ekki taka þessi atriði er varða samskiptavanda til frekari skoðunar en fylgist áfram með gangi mála. 

Þarf að laga baðherbergi og heimsóknaaðstöðu

Í bréfinu segir einnig að ljóst sé að spítalinn hafi ekki brugðist við öllum þeim ábendingum sem umboðsmaður Alþingis beindi til hans í skýrslu árið 2019. Enn þurfi að lagfæra innréttingar og tæki á baðherbergjum á öryggisgeðdeild og gera úrbætur á heimsóknaaðstöðu deildarinnar. 

Þá sé ljóst að ekki hafi verið fyllilega tryggt að upplýsingum væri komið til sjúklinga um rétt þeirra á deildunum og þær kæru- og kvörtunarleiðir sem þeim stendur til boða. Þá væri ef til vill fulltakmarkað framboð af iðju og spítalinn þyrfti að taka það til skoðunar. 

Að lokum óskar umboðsmaður eftir upplýsingum frá spítalanum um vistanir sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildarinnar frá 1. október 2018 til 1. júní þessa árs. Upplýsingarnar eiga að lúta að lengd vistana, aðstæður sjúklinga og mögulegar frelsissviptingar. 

Umboðsmaður hitti í gær fulltrúa Geðhjálpar til að ræða málefni réttar- og öryggisgeðdeildanna, en fréttir síðasta mánaðar af slæmum aðbúnaði byggðu að miklu leyti á greinargerð Geðhjálpar um ástandið á deildunum.