Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Play verður að semja, segir forseti ASÍ

25.06.2021 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Forseti ASÍ telur það ekki spurningu hvort heldur hvenær nýja flugfélagið Play verði að ganga til samninga við Flugfreyjufélag Íslands.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir sorglegt að nýtt fyrirtæki sem ætli sér stóra hluti á íslenskum markaði hyggist ekki vanda til verka og gera raunverulega kjarasamninga. Flugfélagið Play sem hóf sig til flugs í gær telur sig þegar með fullgilda kjarasamninga.

Ríkissáttassemjari fær erindi frá Flugfreyjufélagi Íslands vegna flugfélagsins þar sem forráðamenn þess neita að ganga til kjarasamninga við Flugfreyjufélag Íslands. Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands segir þetta dapurlega stöðu:  „Já, mér finnst það náttúrulega mjög sorglegt, að nýtt fyrirtæki sem ætlar sér stóra hluti á markaðnum ætli ekki að vanda til verka og gera raunverulega kjarasamninga því eins og við höfum sýnt fram á þá geta þetta ekki talist raunverulegir kjarasamningar sem gerðir eru á félagslegum grunni og við höfum skylgreint ÍFF sem gult stéttarfélag það er að segja félag sem er undir áhrifavaldi atvinnurekenda. Við höfum sagt að launin þarna séu lægri en gengur og gerist og Play hefur reyndar staðfest það í fjárfestakynningum sínum þannig að mér þykir mjög miður að þeir nýti ekki tækifærið og geri samninga við raunverulegt stéttarfélag.“

Drífa segir ljóst að það sé hagur þeirra sem hefji störf hjá Play og hafi áður unnið hjá flugfélaginu WOW að ganga í Flugfreyjufélagið þar sem starfsmenn hafi öðlast réttindi. Eingöngu sé tímaspursmál hvenær forsvarsmenn Play verði að gera kjarasamning. Flugfélagið myndi lægja öldur gengi það til kjarasamninga.

Birgir Jónsson forstjóri Play telur ekki ástæðu til að semja við Flugfreyjufélagið: „Já, Flugfreyjufélagið hefur gert það en við sjáum ekki ástæðu til þess. Við erum með fullgildan kjarasamning við fullgilt stéttarfélag og ég ber mikla virðingu fyrir Flugfreyjufélaginu en við sjáum ekki ástæðu til að fara í kjaraviðræður þegar við erum með fullgildan samning.“
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV