Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gleðilegt og betri staða í bókunum en 2019

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Fólk í veitinga-, ferðaþjónustu og menningargreinum fagnar afléttingunum. Síðsumarið og haustið lítur betur út en árið 2019, segir framkvæmdastjóri Eldingar.

Ferðaþjónustufyrirtækið Elding býður upp á hvala-, lunda- og norðurljósaferðir, sjóstöng og fleira og var með 60 starfsmenn fyrir faraldurinn.

„Þetta er skref í rétta átt og gleðilegt fyrir okkur Íslendingana og vera það land sem er búið að aflétta öllu, örugglega með fyrstu löndum í heimi, svo já að sjálfsögðu eru það gleðitíðindi,“ segir Rannveig Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Eldingar.

Fór síminn að hringja hjá þér strax?

„Hann er náttúrulega ekki búinn að stoppa í dag en ég veit nú ekki alveg hvort það sé út af þessu. En það er mikið að gerast í bókunum í framtíðinni og svona eftir, ég veit ekki hvað ég á að segja 25. júlí, þá lítur þetta raunverulega betur út heldur en 2019. Svo ef ekkert gerist og það verður ekkert bakslag í þessu að þá erum við bara að horfa fram á mjög gott haust og mjög góðan vetur.“

Hjá ykkur í Eldingu þá voru engir starfsmenn svo mánuðum skipti, ertu búin að fjölga?

„Já, hér voru engir starfsmenn, bara í litlu hlutastarfi við að passa að bátarnir myndu ekki sökkva og svara þessum litlu póstum sem komu inn. En nú erum við orðin eitthvað fimmtán og við verðum orðin alla vega 25 eftir svona tíu daga, svo það eykst með hverjum deginum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV