Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Darri Freyr hættir þjálfun KR vegna anna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Darri Freyr hættir þjálfun KR vegna anna

25.06.2021 - 10:25
Darri Freyr Atlason hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs KR í körfubolta. Þetta staðfestir Darri við RÚV í dag. Hann segist hætta í góðu, og ástæðan fyrir brotthvarfi sínu séu miklar annir í vinnu.

Fram kom í gærkvöld í frétt á körfuboltavefnum karfan.is að samkvæmt þeirra heimildum hefði Darri sagt upp störfum og að Helgi Már Magnússon leikmaður liðsins og fyrrverandi þjálfari, væri talinn líklegur eftirmaður. Darri Freyr staðfestir brotthvarf sitt í samtali við RÚV í dag.

„Ég er að láta af störfum sem aðalþjálfari vegna anna í vinnu. Það er allt í blóma á milli mín og félagsins og við munum eflaust halda samstarfi áfram með einvherjum hætti. Ég hef bara einfaldlega ekki tíma til þess að sinna starfi aðalþjálfara,“ sagði Darri Freyr við RÚV.

Undir stjórn Darra endaði KR í 5. sæti úrvalsdeildar karla í vor og komst svo í undanúrslit úrslitakeppni Íslandsmótsins. KR lagði Val í hörku einvígi í 8-liða úrslitum en féll svo úr leik fyrir deildarmeisturum Keflavíkur í undanúrslitum. Áður þjálfaði Darri kvennalið Vals og áður KR. Undir stjórn Darra urðu Valskonur Íslands- og bikarmeistarar 2019.

Darri mun nú einbeita sér alfarið að því að stýra viðskiptaþróun hjá fyrirtækinu Lucinity þar sem hann hefur starfað meðfram þjálfarastörfum sínum í körfuboltanum.