Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bikarmeistararnir úr leik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Bikarmeistararnir úr leik

25.06.2021 - 21:33
Þróttur R. vann nokkuð óvæntan útisigur gegn bikarmeisturum Selfoss í kvöld og bikarmeistararnir því úr leik. Þá vann Lengjudeildarlið FH efstu deildar lið Fylkis í Árbænum. Breiðablik vann svo öruggan sigur á Aftureldingu.

Bikarmeistararnir fóru vel af stað á Selfossi og komust 1-0 yfir með marki frá Brenna Lovera á 13. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Þróttarar þurftu ekki að bíða lengi eftir jöfnunarmarkinu í seinni hálfleik en það gerði Lorena Baumann á 52. mínútu, þrumuskot upp í samskeytin. Katherine Cousins kom svo gestunum yfir tíu mínútum síðar með góðu skoti. Á 75. mínútu kom þriðja mark Þróttara og Guðrún Ólafía Þorsteinsdóttir gulltrygði sigur Þróttara á 85. mínútu. Bikarmeistarar Selfoss eru því úr leik og Þróttur R. verður með í undanúrslitunum.

Í Árbænum mættu heimakonur í Fylki liði FH. Fylkir er í áttunda sæti efstu deildar á meðan að gestirnir frá Hafnarfirði sitja í þriðja sæti fyrstu deildar. Það voru þó gestirnir sem byrjuðu betur en Selma Dögg Björgvinsdóttir kom FH yfir undir lok fyrri hálfleiks. En leikurinn var nokkuð tíðindalítill fram að markinu. Það var annað upp á teningnum í seinni hálfleik. Þegar um tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum kom Brittney Lawrence FH í tveggja marka forystu. Á 77. mínútu fékk Kolbrún Tinna beint rautt spjald fyrir brot á leikmanni FH. Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir tók aukaspyrnuna í kjölfarið og skoraði og FH því þremur mörkum yfir. Fjórða mark FH kom fimm mínútum fyrir leikslok en þar var að verki Elín Björg Símonardóttir. Bryndís Arna Níelsdóttir minnkaði muninn fyrir Fylki undir lokin en það mark kom alltof seint. FH verður því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin.

Breiðablik átti ekki í neinum vandræðum með Aftureldingu í Kópavogi í kvöld. Liðið skoraði tvö mörk á fyrstu 20. mínútum leiksins og eftirleikurinn því nokkuð auðveldur. Blikar gáfu í undir lokin og bættu þremur mörkum við í seinni háfleik og lokatölur því 5-0. Mörk Breiðabliks í kvöld gerðu Agla María Albertsdóttir, sem skoraði tvö mörk, Vigdís Edda Friðriksdóttir, Birta Georgsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir. 

Breiðablik, FH, Valur og Þróttur R. verða því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin.