Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bareigendur á fullu að bóka tónlistarmenn fyrir kvöldið

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Kráareigendur eru í óða önn að bóka tónlistarmenn fyrir kvöldið og helgina og ráða inn starfsfólk. Allar sóttvarnareglur innanlands falla úr gildi á miðnætti. Arnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri og einn eigenda Lebowski bars, Kalda bars, Enska barsins, The Irishman Pub og Dönsku kráarinnar í miðbæ Reykjavíkur, segir að fyrirvarinn sé lítill en hann kvarti ekki. Viðbúið sé að það taki um tvö ár að ná sama dampi og var á rekstrinum áður en heimsfaraldurinn braust út. 

„Mín fyrstu viðbrögð eru bara þvílík gleði og léttir. Ég hlakka til að takast á við þetta. Nú hefst ákveðin uppbygging, sérstaklega fyrir bar- og skemmtistaðaeigendur sem eru búnir að vera í fimmtán mánuði í mjög vondum málum. Vonandi er þetta bara byrjunin á góðum málum í framtíðinni fyrir okkur að koma okkur í fjárhagslega góða stöðu og vinna upp tapið síðastliðna fimmtán mánuði. Nú erum við að reyna að ráða inn fólk á fullu og manna upp. Kvöldið í kvöld, það þarf að manna það vel upp af tónlistarmönnum, starfsfólki og dyravörðum. Fyrirvarinn er lítill en við ætlum ekkert að vera að kvarta yfir því. Við þiggjum þetta. Þetta eru bara frábærar fréttir,“ segir Arnar. 

Á að henda í góða veislu í kvöld?

„Ja, ég geri ráð fyrir því að Íslendingar verði mjög ánægðir með þetta en haldi samt líka áfram að mæta snemma eins og þeir hafa tamið sér. Við höldum auðvitað áfram að passa upp á réttan fjölda inni á stöðunum. Við erum enn þá að bjóða upp á spritt og svoleiðis og hvetjum fólk til þess að nýta sér það, aðeins að ganga hægt um gleðinnar dyr. En það má kannski aðeins nota hægri, ekki bara vinstri, eftir miðnætti, ekki fyrir miðnætti, bara eftir miðnætti.“

Dómsmálið tekið fyrir í júlí

Fram kom í fréttum í febrúar að Arnar hefði stefnt ríkinu á þeim forsendum að ekki hafi mátt loka krám samkvæmt þágildandi sóttvarnareglum. Hann fer fram á skaðabætur. Hann telur að hvorki hafi verið gætt meðalhófs né virt jafnræðisregla stjórnarskrár og stjórnsýslulaga þegar bareigendum var gert að loka öldurhúsunum.

„Við erum enn þá auðvitað í okkar máli með það að fá viðurkenningu á því að það hafi verið misræmi milli veitingastaða og skemmtistaða þegar sú lokun var. Við erum enn þá að vinna í því. Ég held að það sé verið að taka það fyrir um miðjan júlí. En það er aðallega það að ef við skyldum lenda í þessu aftur að okkur verði ekki bara hent út í horn og læst og lokað á meðan aðrir fá að hafa opið og selja áfengi,“ segir hann.

Hann telur að það taki um tvö ár þangað til reksturinn verði kominn í sama horf og hann var áður en kórónuveirufaraldurinn braust út. „Og það er bara áfram gakk og ekkert væl,“ segir Arnar.

Bætt hefur verið við fréttina.