Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allar takmarkanir felldar brott innanlands

Mynd: RÚV / RÚV
Frá og með morgundeginum falla allar takmarkanir vegna kórónuveirunnar niður innanlands. Grímuskylda, fjöldatakmarkanir og nálægðartakmörk heyra því sögunni til.

Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar nú um klukkan 11:00. Þar með er lokið 15 mánaða tímabili með mismunandi ströngum samfélagslegum takmörkunum til að hefta smit og útbreiðslu COVID-19. 

Svandís rifjaði við sama tækifæri upp að Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefði sent sér alls 60 minnisblöð síðan í janúar 2020. Þar greindi hann frá því að veirusýking væri komin upp í Kína sem líklega myndi ná til Íslands.

Það þótti henni svartsýnt mat en það reyndust heldur betur orð að sönnu en nú hefur loks verið tilkynnt að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt frá og með morgundeginum.