Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Yfir hundrað tilkynningar um breytingar á tíðahring

24.06.2021 - 16:56
epa08954953 Syringes with vaccine against Covid-19 are prepared at the vaccination centre in Giessen, Germany, 21 January 2021.  EPA-EFE/OLIVER VOGLER / POOL
 Mynd: epa
Lyfjastofnun hafa borist samtals hundrað og ellefu tilkynningar sem snúa að tíðahring kvenna í kjölfar bólusetningar með öllum fjórum bóluefnunum sem notuð hafa verið við kórónuveirunni hérlendis. Tilkynningarnar varða óreglulegar tíðablæðingar eða breytingar á þeim, milliblæðingar, seinkun blæðinga, blettablæðingar eða blæðingar eftir breytingaskeið. Þegar tilkynningar berast Lyfjastofnun er ekki vitað hvort um orsakasamhengi milli bólusetningar og tilkynntra tilvika sé að ræða.

Í svari Lyfjastofnunar við erindi fréttastofu kemur fram að tilkynningarnar skiptist á eftirfarandi hátt: 

BioNTech/Pfizer: 60 tilkynningar

Janssen: 18 tilkynningar

AstraZeneca: 11 tilkynningar

Moderna: 22 tilkynningar

Í svarinu er jafnframt greint frá því að aukaverkanir af þessu tagi hafi ekki komið fram í þeim rannsóknum sem lágu til grundvallar samþykktar bóluefna við kórónuveirunni. En sambærilegar tilkynningar þekkist þó erlendis frá. 

Orsakasamband milli breytinga á tíðahring kvenna og bólusetninga við kórónuveirunni hefur ekki verið staðfest en allar tilkynningar sem Lyfjastofnun berast eru þó skoðaðar og tilkynningar innan Evrópu fara jafnframt í samevrópskan gagnagrunn fyrir tilkynningar um grun um aukaverkun. Þá eru gögnin metin heildstætt.