Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þórólfur búinn að senda heilbrigðisráðherra minnisblöð

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ekkert kórónuveirusmit hefur greinst innanlands í rúma viku. Sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra tvö minnisblöð, annað um aðgerðir innalands en hitt um aðgerðir á landamærunum. Búið er að afnema forgangsröðun við bólusetningu og getur fólk nú skráð sig á netinu.

Óhætt er að segja að staðan í kórónuveirufaraldrinum hér á landi sé góð.

Ekkert innanlandssmit hefur greinst síðan 14. júní og nærri níu af hverjum tíu, sextán ára og eldri, hafa fengið að minnsta kosti einn skammt bóluefnis. Sextíu prósent teljast fullbólusettir.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum um aðgerðir innanlands og samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru þar boðaðar verulegar breytingar. Hann hefur einnig sent minnisblað um aðgerðir á landamærunum. Minnisblöðin verða kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun.

Góður gangur hefur verið í bólusetningum og í morgun tilkynnti heilbrigðisráðuneytið að forgangsröðun hefði verið afnumin. Bólusetning við COVID-19 byggist nú á sömu reglugerðarheimildum og bólusetningar við öðrum smitsjúkdómum. Hægt er að skrá sig í bólusetningu á heilsuveru.is og eru þrjú bóluefni í boði: Moderna, Pfizer og Janssen. 

Talsverð umræða hefur verið á samfélagsmiðlum um að bólusetning hafi truflað tíðarhring kvenna. Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins hafa afar fáar tilkynningar borist um slíkt.  Lyfjastofnun segir í svari við fyrirspurn Vísis.is að 78 tilkynningar hafi borist um slíkt.

Lyfjastofnun segir í svari sínu til visir.is að þegar tilkynningar berist stofnuninni sé ekki vitað hvort um orsakasamhengi milli bólusetningar og tilkynntra tilvika sé að ræða.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV