Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Það sjá allir að þetta er ekki að virka

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur segir að hver kona og maður sjá að ferlið í kringum rammaáætlun virki alls ekki. Það verði að grípa í taumana. Vegna tafa á afgreiðslu 3. áfanga áætlunarinnar er ekki hægt að rannsaka þá kosti sem eru heimilaðir í henni en hafa ekki verið samþykktir á Alþingi. Töfin sé byrjuð að standa starfseminni fyrir þrifum.

Þingsályktunartillaga um þriðji áfanga rammaáætlunar var ekki afgreidd á Alþingi eins og til stóð. Það er óhætt að fullyrða að treglega hefur gengið að koma honum í gegnum þingið. Þrír umhverfisráðherrar hafa lagt hann fram. Sigrún Magnúsdóttir gerði fyrstu tilraun 2016 þegar áætlunin var tilbúin og nú síðast Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Afgreiðslan hefur því dregist í 5 ár.

Tefur jarðvarmavirkjanir

Rammaáætlun rammar inn virkjanakosti sem skiptast í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Orkumálastjóri sagði í Speglinum fyrir nokkru að ljóst væri að stjórnsýsla orkumála virkaði ekki sem skyldi og forstjóri Landsvirkjunar sagði að tímabært væri að Alþingi velti fyrir sér hvort að þessi aðferð virkaði. Það að 3. áfanginn var ekki afgreiddur mun ekki skaða nýtingu orkukosta Landsvirkjunar. Fyrirtæki á enn kosti sem samþykktir voru í öðrum áfanga.

Sjá líka:  Margra ára tafir á afgreiðslu stjórn­mála­manna á rammaáætlun

Geta ekki byrjað að bora

Hins vegar er byrjað að gæta óþreyju hjá jarðvarmafyrirtækjunum og það fyrir allnokkru. Samkvæmt 3. áfanganganum eru þrír jarðvarmavirkjunarkostir Orkuveitunar á Hengilssvæðinu í nýtingarflokki. Þar sitja þeir fastir vegna þess að Alþingi hefur ekki afgreitt málið. Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá OR segir að Orkuveitan hafi beðið eftir að hefjast handa við þessa virkjunarkosti í langan tíma. Fjölmörg ár séu frá því að þeir voru lagðir inn til verkefnastjórnar rammaáætlunar.

„Það sem við höfum verið að horfa á á Hengilssvæðinu er að búa til framtíðarsýn fyrir orkuöflun á svæðinu til langs tíma. Þá erum við ekki bara að tala um rafmagnsframleiðslu. Orka náttúrunnar framleiðir um helming heits vatns á höfuðborgarsvæðinu. Við sjáum fram á að það muni halda áfram og jafnvel aukast í framtíðinni. Og hvernig ætlum við að haga þeirri vinnslu næstu tuttugu þrjátíu árin? Við þurfum að geta rannsakað svæðin sem eru í tillögu verkefnastjórnar í nýtingarflokki til að sjá hvernig best er að haga þeirri vinnslu,“ segir Hildigunnur.

-Getur orkuveitan ekki samkvæmt lögum haldið áfram að rannsaka þessa kosti?

„Nei. Við höfum gert það sem við getum sem eru yfirborðsrannsóknir sem valda ekki raski. En í öllum jarðhita verður að bora djúpt til að sjá hvort hiti eða einhver ummerki á yfirborðinu séu enn gufa eða vatn þarna niðri. Við megum ekki samkvæmt lögum fara inn á svæðin og bora fyrr en að Alþingi hefur samþykkt þessa kosti í nýtingarflokki.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Hellisheiðarvirkjun

Allt situr fast

Þetta þýðir að ekkert er hægt að gera á meðan 3. áfanginn situr fastur í kerfinu. Formaður grænvangs sagði í Speglinum i gær að mikilvægt væri að höggva á þennan hnút Ef allt hefði farið eins og það átti að fara hefði Orkuveitan getað byrjað að rannsaka þessi svæði þegar á árinu 2016. Spurningin er hvort þessar tafir séu byrjaðar að standa starfseminni fyrir þrifum? Já, ég myndi segja það, segir Hildigunnur.

„Eftirspurn eftir heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu eykst um 120 lítra á sekúndu á ári. Þannig að við erum að horfa til þess hvernig við ætlum að anna þessari eftirspurn til langs tíma. Það tekur langað tíma að rannsaka jarðhitasvæði. Það er ekki nóg að bora eina holu og skipuleggja hvernig þú ætlar að nýta svæðið. Þú þarft að bora fleiri holur.“ 

Hún segir til samanburðar að þá hafi Reykjavíkurborg keypt Nesjavelli 1964 vegna þess að menn sáu þá fram á aukna eftirspurn. Byrjað var að miðla heitu vatni frá Nesjavöllum til Reykjavíkur árið 1990.

„Þannig að það tekur tugi ára, alla vegna meira en áratug að koma nýju svæði í vinnslu,“ segir Hildigunnur.

-En gæti blasað við skortur á heitu vatni?

„Veitur myndu að sjálfsögðu alltaf reyna að finna leiðir til að komst hjá því en engu að síður er einhvern veginn engin lausn í sjónmáli núna. Þeir kostir sem við erum að nýta núna og höfum verið að rannsaka. Það var byrjað að huga að þeim kostum sem við erum að nýta núna og rannsaka 2004. Það er fyrir 17 árum síðan. Við getum ekki beðið í 17 ár eftir að rannsaka þessi svæði,“ segir Hildigunnur.

-Ertu með öðrum orðum að segja að þessi stjórnsýsla sé ekki að virka eða að hún virki mjög illa?

„Hún bara virkar ekki. Þessi frestun sýnir bara að við þurfum að grípa í taumana. Og það er ábyrgð stjórnmálamanna og ráðamanna að finna lausn á þessu. Við sem samfélag þurfum að hafa leið til til að taka ákvarðanir í þessum mikilvæga málaflokki. Við þurfum að hafa samtalið og hugmyndin um rammaáætlun að hafa eitthvert ferli þar sem þetta samtal ætti sér stað meðal sérfræðinga og færi svo inn í pólitíkina þar sem ákvörðun yrði tekin var mjög góð. En hún er ekki að virka og það þarf að grípa inn í og það mega ekki líða mörg ár áður en við gerum það.“

Er ekki að virka

Í lögum um rammaáætlun er miðað við að hún sé endurnýjuð á fjögurra ára fresti. Það hefur ekki gengið eftir. Hildigunnur bendir á annar áfangi rammaáætlunar hafi hafist 2004 og staðið til 2011. Núverandi ferlið með þriðja áfangann hafi byrjað 2013 og fjórði áfangi sé byrjaður.

„Þannig að það sér það hver kona og maður að þetta ferli er ekki að virka,“ segir Hildigunnur.