Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir kaup Bain Capital hafa „mjög mikla þýðingu“

24.06.2021 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir fyrirhuguð kaup Bain Capital á 16,6% hlut í félaginu hafa mjög mikla þýðingu fyrir það. Kaupin geri Icelandair kleift að styrkja fjárhagsstöðuna í kjölfar faraldursins og grípa tækifæri á flugmarkaði.

Alþjóðlegi fjárfestingarsjóðurinn Bain Capital hefur náð samkomulagi við Icelandair um kaup á tæplega 5,7 milljarða nýrra hluta í félaginu að andvirði tæplega 8,1 milljarðs króna. Að viðskiptum loknum mun sjóðurinn eiga 16,6% hlut í félaginu og verða langstærsti hluthafinn í fyrirtækinu.

„Það hefur náttúrulega mjög mikla þýðingu fyrir okkar flugfélag. Þessi sjóður er mjög virtur á sínu sviði og fjárfestir talsvert í fluggeiranum og tengdri starfsemi. Það er mjög mikil viðurkenning fyrir viðskiptalíkan Icelandair Group að þessi sjóður hafi áhuga á að koma inn sem stór hluthafi í félaginu,“ segir Bogi.

Hlutafjáraukningin styrkir fjárhagsstöðu félagsins, sem Bogi segir mikilvægt í kjölfar faraldursins. „Að styrkja fjárhagsstöðuna er mjög mikilvægt. Við erum bæði með þessu að styrkja lausafjárstöðu félagsins og eiginfjárstöðu og fyrir öll flugfélög í heiminum þá er það mjög mikilvægt á tímum sem þessum,“ segir hann.

„Hér eftir sem hingað til þá horfum við á þau tækifæri sem eru á okkar mörkuðum og vöxum út frá þeim og grípum þau. Það er það sem stýrir vextinum, fjölgun starfa og okkar starfsemi í heild sinni,“ segir Bogi. „Það eru mikil tækifæri líka á flugvélamarkaðnum núna og við erum að skoða langtímastefnu félagsins í flotamálum. Þetta mun styðja okkur í þeirri vinnu og styrkja félagið til þess að nýta þau tækifæri sem þar eru,“ segir hann.

Samkvæmt samkomulaginu fær Bain Capital fulltrúa í stjórn félagsins. Bogi segir að ekki hafi komið fram að fjárfestingasjóðurinn vilji gera breytingar á starfsemi félagsins.

„Það hefur ekki komið fram í samtalinu. Bain Capital vinnur yfirleitt þannig að þeir fylgjast vel með þeim félögum sem þeir eru stórir hluthafar í,“ segir Bogi. „Viðskiptalíkan félagsins snýst um að reka þetta tengimódel út frá Keflavík. Það er lykillinn í okkar viðskiptalíkani og það er það sem Bain Capital er að kaupa sig inn í. Þar ætlar félagið að vaxa og dafna,“ segir hann.